Á fimm mánaða afmæli eldgossins í Fagradalsfjalli lá gosvirkni niðri fram eftir degi, eins og sjá mátti á myndum í fréttum Stöðvar 2. Það breyttist síðdegis þegar aftur fór að krauma í gígnum. Óróarit Veðurstofu sýndi upptaktinn.

Ekkert lát virðist á ferðamannastraumnum þá daga sem lítið sést til gossins. Aðstæður teljast lífshættulegar en verstu meiðslin hafa verið beinbrot.
„Mér finnst kannski standa upp úr hvað þetta hefur allt gengið vel,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri lögreglu.
„Það er búið að vera gríðarlegt álag á björgunarsveitum, lögreglu. Það er búið að vera álag á landeigendum, vegagerð og fleiru. En einhvern veginn lendum við á löppunum. Og einhver slys og annað. En þetta er búið að ganga bara mjög vel.“

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir gosið hafa verið mikinn reynslutíma.
„Það er sem sé þetta lærdómsgildi, bæði fyrir jarðvísindin og fyrir þjóðfélagið, sem mér finnst standa upp úr af þessu gosi,“ segir Páll
Það skeri sig úr frá öðrum eldgosum hvað það sé stöðugt og máttlítið.
„Flest af þeim eldgosum sem við höfum séð hafa verið miklu kröftugri. Byrjað með miklum látum og gassagangi og síðan fjara þau út á tiltölulega stuttum tíma. Þetta gos er búið að vera svona að malla í langan tíma með tiltölulega litlum krafti.“

Hjálmar horfir líka á gosið sem formaður bæjarráðs Grindavíkur.
„Þetta hefur náttúrlega þýtt alveg gríðarlegan fjölda ferðamanna inn í bæinn, og inn og út úr bænum. Og við höfum svo sem bara fagnað þessu. Ég veit að veitingastaðir og verslanir hafa fengið sinn skerf af því.“
Hjá veitingahúsum í bænum hefur gosið gert meira en að vega upp kreppuástand vegna covid.
„Síðustu mánuðir hafa verið bara mjög góðir, með bestu mánuðum frá upphafi. Og það er bara gosinu að þakka. Meiri traffík í gegn. Allir staðir hérna njóta góðs af því,“ segir Kári Guðmundsson, eigandi veitingastaðarins Fish House Bar & Grill.

Og gasmengun hefur ekki ógnað bæjarbúum.
„Jafnvel í logninu hérna í Grindavík þá höfum við ekki fengið nein vandræði út af mengun. Og vonum bara að svo verði áfram,“ segir Hjálmar.
Jarðvísindamaðurinn segir engu hægt að spá um goslok.
„Þetta gæti endað snögglega. Sum gos hafa endað mjög snögglega. Það gæti líka mallað svona áfram í mánuði og ár, - þessvegna,“ segir Páll Einarsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.