Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum þar sem segir að henni hafi borist tilkynning á sunnudaginn um mann sem fallið hafði í sjóinn við affallið frá Reykjanesvirkjun.
Viðbragðsaðilar frá lögreglu, Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu og þyrla Landhelgisgæslunnar fóru þegar á vettvang. Maðurinn fannst meðvitundarlaus í sjónum og endurlífgun bar ekki árangur.
Lögreglan á Suðurnesjum ítrekar í tilkynningunni að sjóböð á fyrrnefndum stað eru stranglega bönnuð.
Varað hefur verið við því að baða sig í affallinu en HS Orka sendi frá sér tilkynningu á síðasta ári þess efnis, eftir að vart varð við vinsældir affallsins sem baðstaðs. Bæði geti vatnið við affallið hitnað skyndilega, auk þess sem að mikill sogkraftur Atlantshafsins og öldugangur getur skapað hættu við affallið.