Fram kemur í tölum Hagstofu Íslands að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 0,16% milli júní og júlí. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkar um 0,05%.
Sumarútsölur hafa verið í gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 5,3% milli mánaða. Útsölur höfðu 0,20% áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs.
Verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 11,1% milli mánaða (áhrif 0,16% til hækkunar), kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 0,9% (0,14%) og verð á bensíni og olíum hækkaði um 3,9% (0,12%).
Ósammála um þróunina
Greining Íslandsbanka spáði nýverið 4,2% verðbólgu í júlí og að verðbólga myndi taka að hjaðna hægt og rólega þegar frá líður.
Hagfræðideild Landsbankans spáði því að verðbólga myndi hækka í júlí og mælast 4,4%. Hagfræðideildin gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs muni hækka næstu tvo mánuði og verðbólga mælist 4,1% í október.