Árið 2019 létust 72 þúsund manns vegna of stórs skammts. Um er að ræða 29 prósenta hækkun og er það mesta hækkun sem orðið hefur í þessum málaflokki í Bandaríkjunum.
Dauðsföll vegna fíkniefnaneyslu hafa verið stórt vandamál í Bandaríkjunum en svo virðist sem samkomubann og aðrar takmarkanir sem fylgt hafa heimsfaraldrinum hafi bætt verulega í vandann.
Engar vísbendingar eru um fjölgun þeirra sem ánetjast fíkniefnum, heldur virðist aukningin vera á meðal þeirra sem háðir voru fyrir. Ætla má að aðstæður í heimsfaraldrinum hafi einangrað þá sem háðir voru og gert erfiðara fyrir þá að sækja sér aðstoð.
Yfir 60 prósent dauðsfallanna má rekja til neyslu á Fentanyli, sem þróað er til þess að meðhöndla krabbameinssjúklinga eða aðra sem glíma við mikinn sársauka. Sala á Fentanyli hefur aukist á svörtum markaði og er því gjarnan blandað við önnur fíkniefni eins og heróín eða kókaín.
Fíkniefnaneysla útskýrir þó aðeins lítinn hluta þeirra heildardauðsfalla sem urðu í Bandaríkjunum í fyrra. Alls létust 3,3 milljónir og er það hæsta tíðni dauðsfalla sem orðið hefur á einu ári. Þar af voru 378 þúsund andlát vegna Covid-19.