Fótbolti

Sveinn Aron æfir með SønderjyskE

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveinn Aron í leik með OB á síðustu leiktíð.
Sveinn Aron í leik með OB á síðustu leiktíð. Lars Ronbog/Getty Images

Knattspyrnumaðurinn Sveinn Aron Guðjohnsen æfir nú með danska úrvalsdeildarfélaginu SønderjyskE í þeirri von um að vinna sér inn samning hjá félaginu.

Bold.dk greindi frá.

Hinn 23 ára gamli framherji lék með danska úrvalsdeildarfélaginu OB á síðustu leiktíð en hann var þar á láni frá ítalska félaginu Spezia.

Samningur hans við ítalska liðið rann út að loknu síðasta tímabili og ákvað OB að semja ekki við Svein Aron sem hefur leikið fjóra A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Sveinn Aron var lykilmaður í íslenska U-21 árs landsliðinu sem fór alla leið á lokamót EM fyrr á þessu ári. 

Alls skoraði hann sjö mörk í þeim 17 landsleikjum sem hann lék fyrir U-21 árs landslið Íslands.

Hann er nú á reynslu hjá SønderjyskE og gæti samið við liðið í kjölfarið. Danska úrvalsdeildin hefst síðar í þessari viku.

SønderjyskE heimsækir nýliða Silkeborg í fyrstu umferð en Stefán Teitur Þórðarson leikur með liðinu. Skagamaðurinn knái verður hins vegar ekki með Silkeborg í upphafi móts líkt og Vísir greindi frá í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×