
Sveitarstjórnir Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur, Súðavíkurhrepps, Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar ásamt stjórn Vestfjarðastofu hvetja Alþingi, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Vegagerðina til að taka höndum saman og finna leið til að flýta framkvæmdum á Dynjandisheiði eins og kostur er. Dynjandisheiði megi ekki við töfum.

„Hin mikla framkvæmd Dýrafjarðargöng mun ekki nýtast til fulls fyrr en vegur um Dynjandisheiði er fullgerður frá Mjólká í Vatnsfjörð ásamt Bíldudalsvegi. Um er að ræða nýjan veg í stað 70 ára gamals vegar sem ekki hefur notið nema lágmarks viðhalds frá upphafi.
Heilsárstenging milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða skiptir miklu máli fyrir vaxandi atvinnulíf og samfélag á Vestfjörðum. Hér skipta máli mánuðir og ár og því mikilvægt að bjóða út næsta áfanga strax á þessu ári þar sem sú framkvæmd tekur 2-3 ár,“ segir í ályktuninni.

Í frétt Stöðvar 2 nýlega kom fram að Vegagerðin hefði fallið frá því að bjóða út stærsta áfanga nýs vegar yfir Dynjandisheiði í sumar þar sem ekki væru til peningar í verkið. Vegagerðarmenn höfðu gefið til kynna að byrjað yrði á fjórtán kílómetra kafla yfir háheiðina í sumar. Sagði vegamálastjóri að í staðinn yrði reynt að lengja þann kafla sem núna væri unnið að.
Í frétt frá Vegagerðinni í framhaldinu um framgang verksins segir að ákveðið hafi verið að leita eftir framkvæmdaleyfi fyrir viðbót við núverandi framkvæmd. Viðbótin sé tveir kílómetrar að lengd. Við það detti út einbreið brú og veglína verði umtalsvert betri ásamt bættum vegamótum við Bíldudalsveg en þar sé ætlunin að byggja upp sexhundruð metra kafla.
Í frétt Stöðvar 2 sagðist vegamálastjóri gera ráð fyrir að næsti áfangi yrði boðinn út á næsta ári. Vegagerðin segir að hann sé tólf kílómetra langur og á áætlun á árinu 2022. Það sé 2-3 ára verkefni.

„Framkvæmdasvæðið er frá nýbyggingu við Þverdalsá og nánast að Neðra-Eyjarvatni en verklok á þessum áfanga gætu orðið undir árslok 2023 eða snemma árs 2024.
Síðasti áfanginn á heiðinni er 7 km langur og er á áætlun 2023 en það er 1-2 ára verk,“ segir Vegagerðin.

Vestfjarðastofa og vestfirsku sveitarfélögin segja hins vegar í sinni ályktun að æskilegt væri að bjóða út alla framkvæmdina í einu til að flýta framkvæmdum og ekki síður til að ná fram eins mikilli hagkvæmni og hægt sé. Hvert útboð kosti tíma og peninga auk þess sem fyrirsjáanleiki hljóti að vera æskilegur fyrir framkvæmdaaðila einnig.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 í síðasta mánuði: