Erlent

Rann­saka kirkju­bruna á landi frumbyggja

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kirkjurnar tvær brunnu til kaldra kola í gærmorgun.
Kirkjurnar tvær brunnu til kaldra kola í gærmorgun. Getty/Andrew Francis Wallace

Tvær kaþólskar kirkjur brunnu til grunna á landi frumbyggja í Bresku-Kólumbíu í Kanada í gærmorgun. Lögregla á svæðinu segir brunana til rannsóknar en talið er líklegt að eitthvað misjafnt hafi leitt til eldanna.

Gærdagurinn var hátíðisdagur fólks af frumbyggjaættum (e. National Indigenous People‘s Day) og telur lögregla að einhver tengsl séu milli þess og brunanna. Kirkjurnar tvær, Sacred Heart kirkjan og St. Gregorys kirkja voru reistar fyrir meira en hundrað árum síðan og skilja um 40 kílómetrar þær að. Kanadíska ríkisútvarpið greinir frá. 

Talið er að eldfimir vökvar hafi verið notaðir til að kynda eldana. Önnur kirkjan er á landi Pentiction frumbyggjaþjóðarinnar og hin á landi Osoyoos þjóðarinnar. Lönd þjóðanna tveggja eru tæpum 100 kílómetrum frá bænum Kamloops, þar sem líkamsleifar 215 barna af frumbyggjaættum fundust grafnar við heimavistarskóla í maí.

Þúsundir barna af frumbyggjaættum voru sendar í slíka skóla á 19. og 20. öld og var tilgangur skólanna að afmá menningu barnanna og alaga þau að innflytjendum frá Evrópu. Börnin voru þvinguð til að taka upp kristna siði og þeim var meinað að tala eigin tungumál. Skólarnir voru reknir af ríkinu og trúarstofnunum, kaþólsku kirkjunni meðtalinni.

Lögreglan í Penticton greindi frá því að lögreglumaður hafi orðið var við eld í annarri kirkjunni um klukkan eitt á aðfaranótt mánudags, að staðartíma, en þegar hann hafi komið að kirkjunni hafi hún staðið í ljósum logum. Tveimur klukkutímum síðar hafi lögreglu í Oliver borist tilkynning þess efnis að kviknað væri í hinni kirkjunni.


Tengdar fréttir

Fjölda­gröf kanadískra barna fannst við skóla

Fjöldagröf 215 kanadískra barna hefur fundist í Bresku Kólumbíu í Kanada. Er þar um að ræða börn af frumbyggjaættum sem sóttu heimavistarskóla. Breska ríkisútvarpið greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×