Frá þessu greinir Guardian en það merkilega er að það skrýtnasta við fyrirspurn þingmannsins er ekki spurningin sjálf, heldur sú staðreynd að henni var beint til aðstoðarforstjóra skógræktar ríkisins, sem fer með umsjón þjóðgarða landsins.
Gohmert sagðist vita til þess að skógræktin hefði mikinn áhuga á því að vinna gegn loftslagsvánni.
„Getur skógræktin gert eitthvað til að breyta sporbraut tunglsins um jörðina eða sporbraut jarðarinnar umhverfis sólina?“ spurði þingmaðurinn. „Það myndi augljóslega hafa veruleg áhrif á loftslagið.“
Aðstoðarforstjórinn, Jennifer Eberlien, átti ekki til annað svar fyrir þingmanninn að þetta væri eitthvað sem hún þyrfti að skoða og svara honum síðar.
„Ja, ef þið hjá skógræktinni getið látið þetta gerast þá vildi ég vita það,“ sagði Gohmert.
Samkvæmt Guardian virtist þingmanninum fullkominn alvara með spurningunni en margir hafa leitt að því líkur að með henni hafi hann viljað koma því sjónarmiði á framfæri að loftslagsbreytingar megi rekja til náttúrulegra fyrirbæra sem maðurinn hefur enga stjórn á.
Fyrir um þremur árum varpaði annar þingmaður Repúblikanaflokksins, Mo Brooks, fram þeirri kenningu á þingfundi að yfirborð sjávar hefði hækkað vegna strandrofs, það er að segja að yfirborðið væri að hækka vegna hruns grjóts og jarðvegar í sjóinn.