Valur og KR hafa unnið tvo leiki hvort í einvígi sínu en allir sigrarnir hafa komið á útivelli. Vinni KR í kvöld verður þetta aðeins annað fimm leikja einvígið í sögunni þar sem allir leikir vinnast á útivelli. Hitt var þegar Snæfell sló KR út í undanúrslitunum 2010.
Það ætti nú að vera ágætar líkur á KR-sigri í kvöld enda hefur liðið verið frábær á útivelli. Ekki bara á þessu tímabili heldur einnig í úrslitakeppninni undanfarin ár.
KR-ingar hafa þannig unnið tíu af síðustu ellefu útileikjum sínum í úrslitakeppni. Báða leikina í þessari úrslitakeppni, fimm af sex útileikjum þegar þeir urðu Íslandsmeistarar 2019 og þrjá síðustu útileiki sína þegar KR-liðið vann Íslandsmeistaratitilinn vorið 2018.
Eina tap KR á útivelli síðan í miðju undanúrslitaeinvígi 2018 kom í Þorlákshöfn 9. apríl 2019 í öðrum leik í undanúrslitaeinvígi KR og Þórs. Þórsliðið vann þá 102-90 sigur þar sem Kinu Rochford var með 29 stig, 17 fráköst, 9 stoðsendingar og 50 framlagsstig.
Á sama tíma hafa KR-ingar aðeins unnið 6 af 11 heimaleikjum sínum þar af hafa þeir aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum í úrslitakeppni í DHL-höllinni.
Oddaleikur Vals og KR verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 19.50 eða strax á eftir beinni útsendingu frá oddaleik Stjörnunnar og Grindavíkur sem eru líka að spila hreinan úrslitaleik um sæti í undanúrslitunum.
Síðustu ellefu útileikir KR í úrslitakeppni
- Undanúrslit 2018
- 1 stigs sigur á Haukum (84-83)
- Lokaúrslit 2018
- 21 stigs sigur á Tindastól (75-54)
- 2 stiga sigur á Tindastól (77-75)
- Átta liða úrslit 2019
- 1 stigs sigur á Keflavík (77-76)
- 21 stigs sigur á Keflavík (85-64)
- Undanúrslit 2019
- 12 stiga tap fyrir Þór Þorl. (90-102)
- 15 stiga sigur á Þór Þorl. (108-93)
- Lokaúrslit 2019
- 13 stiga sigur á ÍR (86-73)
- 5 stiga sigur á ÍR (80-75)
- Átta liða úrslit 2021
- 1 stigs sigur á Val (99-98)
- 12 stiga sigur á Val (115-103)
-
10 sigrar í síðustu 11 útileikjum í úrslitakeppni
- 6-5 á heimavelli á sama tímabili