Handbolti

Fór yfir ótrúlegan sjö mínútna kafla Árna Braga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Árni Bragi Eyjólfsson í leiknum gegn Val á mánudaginn.
Árni Bragi Eyjólfsson í leiknum gegn Val á mánudaginn. vísir/elín björg

Árni Bragi Eyjólfsson hefur verið heitasti leikmaður Olís-deildar karla eftir síðasta hléið. Hann átti enn einn stórleikinn þegar KA tapaði fyrir Val, 31-27, á mánudaginn.

Árni Bragi skoraði ellefu mörk og var sérstaklega öflugur seinni hluta fyrri hálfleiks þegar KA lék með sjö sóknarmenn. Theodór Ingi Pálmason fór yfir þennan ótrúlega kafla Árna Braga í Seinni bylgjunni í gær.

„Hann var alveg frábær á þessum kafla í lok fyrri hálfleiks. Valsararnir náðu að bregðast við í byrjun seinni hálfleiks með því að færa Einar Þorstein [Ólafsson] fyrir framan og trufla flæðið,“ sagði Theodór. 

Því næst sýndi hann sjö sóknir KA í röð þar sem Árni Bragi tók alltaf rétta ákvörðun, skoraði eða bjó til dauðafæri. KA-menn skoruðu sex mörk í þessum sjö sóknum.

„Þetta eru sjö sóknir í röð á tæplega sjö mínútna kafla. Þetta voru hornasendingar, línusendingar, skot og þversending yfir á skyttuna hinum megin. Hann kom KA inn í þennan leik,“ sagði Theodór um Árna Braga.

Klippa: Seinni bylgjan - Syrpa með Árna Braga

Mosfellingurinn er markahæstur í Olís-deildinni 158 mörk í 21 leik, eða 7,5 mörk að meðaltali í leik.

KA, sem er í 5. sæti Olís-deildarinnar, sækir Þór heim í Akureyrarslag í lokaumferðinni á fimmtudaginn. KA-menn tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni í síðustu viku, í fyrsta sinn í sextán ár.


Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×