Sóley Kristjánsdóttir, samstarfskona Mörtu, segir tímasetningu útgáfu bókarinnar sérstaklega góða nú. „Fyrirtæki standa frammi fyrir aukinni kröfu um að þau skili ekki einungis hagnaði til hluthafa heldur hafi einnig jákvæð áhrif á umhverfi sitt, samfélagið og jú ánægju, líðan og heilbrigði starfsfólks. Því er mikilvægt að stjórnendur þekki megin áhrifavalda vellíðanar og hvernig megi stuðla að heilbrigðu og eftirsóknarverðu starfsumhverfi,“ segir Sóley.
Staðan í heiminum: Sjö af hverjum tíu í basli
Í alþjóðlegri rannsókn sem Gallup gerði árið 2020 sýndu niðurstöður að um það bil sjö af hverjum tíu eru í basli eða þrengingum í sínu lífi.
Og að aðeins þrjátíu prósent fólks dafni vel.
Að sögn Mörtu og Sóleyjar, sker Ísland sig reyndar nokkuð úr sem önnur hamingjusamasta þjóð í heimi.
Þær segja hins vegar að það dragi ekki úr mikilvægi þess að á Íslandi þurfi að huga vel að andlegri líðan starfsfólks.
Enda verjum við stórum hluta lífsins í vinnunni.
Bókin byggir á umfangsmiklum gögnum sem Gallup hefur safnað um allan heim. Þar er meðal annars fjallað um:
- Fimm þætti vellíðanar: starfsferill, félagsleg, fjárhagsleg, líkamleg og samfélagsleg
- Hvers vegna vellíðan í starfi er helsti drifkraftur almennrar vellíðanar
- Hvernig teymi sem dafna vel geta haft jákvæð áhrif á fyrirtæki og samfélagið.
- Hvers vegna árangursríkasta leiðin til að auka vellíðan fólks er að efla og nýta styrkleika þess
Þá er nýr mælikvarði kynntur í bókinni, „Gallup Net Thriving,“ sem er sérsniðin fyrir vinnustaði til að mæla vellíðan starfsfólks og fylgjast með breytingum á líðan þeirra.
Að sögn Sóleyjar er þessi mælikvarði mjög einfaldur í notkun en einn af kostum hans er að stjórnendur geta þá fylgst með líðan starfsfólks síns og borið hana saman við hvernig vellíðan innan vinnustaðarins er að mælast í samanburði við aðra.
Mælikvarðinn mælir hvort fólk sé í þrengingum, basli eða dafni á vinnustaðnum, sem á ensku er kortlagt sem suffering, struggling and thriving,“
segir Sóley.
Staðan á Íslandi
Sóley segir mælikvarðann hluta af þeim samfélagsmælikvarða sem Gallup á Íslandi hefur stuðst við um árabil.
Hins vegar hafi kvarðinn nú verið aðlagaður að umhverfi vinnustaða til þess að gera stjórnendur betur kleift að styðja við vellíðan starfsfólks, til að mynda með því að horfa heildstætt á aðstæður einstaklingsins.
„Það verður því spennandi að bera saman mælingar innan fyrirtækja og þær sem gerðar hafa verið meðal almennings,“ segir Sóley.
Að sögn Sóleyjar, sýna niðurstöður mælinga Gallup á Íslandi, að frá árinu 2010 hefur fjölgað í þeim hópi fólks sem er að dafna vel í lífinu.
Á meðfylgjandi mynd má sjá að árið 2021 segjast 62% fólks á Íslandi dafna vel, en 35% þeirra eru í basli og 3% eru í þrengingum.
Góð líðan starfsfólks allra hagur
Marta segir áherslu Gallup í ráðgjöf til stjórnenda síðustu ára hafa verið þá að ein áhrifaríkasta leiðin til að hafa jákvæð áhrif á líðan starfsfólks, er að gefa fólki tækifæri til að vaxa og þróast í starfi og þá þannig að styrkleikar hvers og eins séu nýttir vel.
Það sé því áhugavert að sjá í bókinni, að þessi áhersla er í takt við niðurstöður Gallup á heimsvísu sem og það sem niðurstöður Gallup á Íslandi hafa sýnt síðustu árin.
Til að mynda kom í ljós í könnun sem við framkvæmdum í byrjun árs 2020 að fólk sem hafði tækifæri til að nýta styrkleika sína í starfi tók um sex sinnum færri veikindadaga en fólk sem hafði það ekki, en þarna vorum við að skoða sérstaklgea veikindi sem fólk rakti til andlegs álags eða streitu.
Þá var fólk sem nýtti styrkleika sína í starfi rúmlega sjö sinnum ólíklegra til að vera í vinnutengdri kulnun,“
segir Marta.
Marta segir því mikið sóknarfæri framundan til að hafa jákvæð áhrif á líðan starfsfólks og árangur fyrirtækja.
„Með því að skapa starfsfólki aðstæður til að nýta og efla styrkleika sína og vinna að verkefnum sem það brennur.“
Mikilvægt er þó að vinnustaðir fylgi eftir mælingum, dragi fram hlutfall þeirra sem upplifa sig í þrengingum, basli eða að dafna á vinnustöðum og mæti þessum niðurstöðum markvisst.
„Stjórnendur eru með þessum mælikvarða að fá því verkfæri til að bæði taka stöðuna og bregðast svo við henni. En við sjáum það í okkar vinnu að mestu skiptir hvernig brugðist er við niðurstöðum sem mælingarnar gefa, að kalli starfsfólks sé svarað“ segir Sóley.