Sérfræðingar telja þó víst að tölurnar séu í raun mun hærri í þessu næstfjölmennasta ríki heims.
Bretar ætla að senda Indverjum öndunarvélar og súrefnisþjöppur og Evrópusambandið undirbýr það nú einnig. Þá hafa Bandaríkjamenn ákveðið að fella niður bann við útflutningi á hávörum til lyfjaframleiðslu, svo Indverjar geti framleitt meira af bóluefni AstraZeneca.
Skortur er á súrefni í landinu og hafa indversk yfirvöld ákveðið að byggja 500 framleiðslustöðvar víðsvegar um landið til að mæta eftirspurninni.

Þar sem öll sjúkrahús eru full leitar fólk í örvæntingu sinni að súrefniskútum og lyfjum á svarta markaðnum, þar sem verð hefur snarhækkað. Súrefnishylki sem áður kostuðu um 6.000 rúpíur kosta nú 50.000 rúpíur.
Þær fjölskyldur sem hafa einhver peningaráð freista þess að ráða lækna og hjúkrunarfræðinga til að koma heim og aðstoða ástvini.
En það er ekki bara plássleysið á sjúkrahúsunum sem veldur vandræðum heldur er álagið á rannsóknardeildir einnig gríðarlegt. Þannig er löng bið í nauðsynlegar rannsóknir á borð við blóðrannsóknir, sneiðmyndatökur og segulómun.