Kettirnir tilheyrðu sitthvorri fjölskyldunni og voru ekki af sömu tegund.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, sem var gerð við University of Glasgow, eru engar ábendingar um það að fólk smitist af köttum né að gæludýr yfirhöfuð eigi þátt í útbreiðslu Covid-19 smita meðal manna.
Prófessorinn Margaret Hosie segir þó mikilvægt að rannsaka SARS-CoV-2 smit hjá dýrum, til að gera sér grein fyrir áhættunni á því að þau fari að smita fólk þegar draga fer úr smitum manna á milli.
Farið var með annan köttinn, hinn fjögurra mánaða Ragdoll, til dýralæknis í apríl í fyrra, þegar hann fór að eiga erfitt með að anda. Honum batnaði ekki og var svæfður. Við krufningu kom í ljós að hann var smitaður af SARS-CoV-2.
Hinn kötturinn var sex ára Síamsköttur og var með nefrennsli og augnsýkingu þegar farið var með hann til dýralæknis. Einkennin reyndust mild og náði hann fullum bata en greindist sömuleiðis með kórónuveiruna.
Í báðum tilvikum var um að ræða læðu.
Vísindamenn telja tilvik smita á milli manna og dýra tíðari en rannsóknin gefur til kynna, þar sem fátítt sé að skepnur séu skimaðar fyrir Covid-19.