Fram kemur í tilkynningu frá Ríkisútvarpinu að auglýsingatekjur hafi lækkað um tæplega 200 milljónir króna milli ára. Auglýsingamarkaður hafi dregist saman á undanförnum árum og samdrátturinn verið mun meiri á síðasta ári í samanburði við fyrri þróun, sem rekja megi til áhrifa kórónuveirufaraldursins. Sífellt stærri hluti auglýsingatekna renni til erlendra aðila með sölu auglýsinga á netinu.
„Ljóst er að frekari þrengingar á auglýsingamarkaði munu hafa áhrif á tekjur félagsins og möguleika þess til að sinna þjónustuhlutverki sínu,“ segir í tilkynningu. Fjármögnun „almannaþjónustunnar“ byggist að hluta á tekjum af auglýsingasölu.
Þá er haft upp úr stuttu innleggi Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra á aðalfundinum í dag að tekist hafi verið á við nýjar áskoranir í fyrra vegna heimsfaraldurs. Það hafi reynst „gæfa RÚV að vinna eftir skýrri stefnu þar sem markmið og hlutverk Ríkisútvarpsins eru vel skilgreind sem og þeim áherslum sem fram koma í þjónustusamningi við mennta- og menningarmálaráðherra.“