Þetta staðfestir Sigrún Björnsdóttir upplýsingafulltrúi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar í samtali við Vísi. Hún segist ekki geta fullyrt um nákvæman fjölda en samkvæmt heimildum fréttastofu greindust hátt í tíu í dag.
Greint var frá fyrsta smitinu sem kom þar upp í dag, en starfsmaðurinn sem greindist með veiruna ku vera mjög veikur og liggur ekki fyrir hvernig hann smitaðist að svo stöddu.
„Það hafa verið fleiri smit staðfest í dag og á morgun fara þeir starfsmenn í skimun sem ekki fóru í dag. Það er ljóst að leikskólanum verður lokað eftir helgi,“ segir Sigrún.
Í pósti sem var sendur til foreldra í kvöld kemur fram að allt starfsfólk, öll börn og foreldrar þeirra þurfi í sóttkví til 23. apríl næstkomandi.
„Staðan í Jörfa er alvarlegri en fyrr í dag. Nú hafa bæst við fleiri smit. Okkur þykir leitt að tilkynna ykkur að það er krafa smitrakningarteymis almannavarna og sóttvarnalæknis að allir starfsmenn, öll börn, foreldrar og allir á heimilum þeirra eigi að fara í sóttkví frá og með 18. apríl til 23. apríl þar sem þau voru útsett fyrir smiti,“ segir í póstinum.