Erlent

Berlusconi á sjúkrahúsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Silvio Berlusconi er nú 84 ára gamall. Hann hefur lifað af krabbamein í blöðruhálskirtli og kórónuveiruna. Hann er einnig hjartveikur.
Silvio Berlusconi er nú 84 ára gamall. Hann hefur lifað af krabbamein í blöðruhálskirtli og kórónuveiruna. Hann er einnig hjartveikur. Vísir/EPA

Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, hefur legið á sjúkrahúsi frá því á mánudag. Ekki hefur verið greint frá því hvað plagar Berlusconi en ekki er gert ráð fyrir að hann geti komið fram opinberlega á næstunni.

Berlusconi átti að koma fyrir dómara í Mílanó vegna dómsmáls í morgun. Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmanni sínum að veikindi Berlusconi séu ekki alvarleg. Annar heimildarmaður úr Áfram Ítalíu, stjórnmálaflokki Berlusconi, segir hann hafa dvalið á heimili sínu í Arcore nærri Mílanó áður en hann var fluttur á sjúkrahús. Þar eigi hann að hvílast um hríð.

Veikindi hafa hrjáð Berlusconi undanfarin misseri. Hann var lagður inn á sjúkrahús með hjartavandamál í Mónakó í janúar í fyrra. Í september greindist hann með kórónuveiruna. Hann gekkst undir stóran hjartauppskurð árið 2016 og fékk krabbamein í blöðurhálskirtli.

Berlusconi er einn nafntogaðasti og alræmdasti forsætisráðherra í sögu Ítalíu. Hann gegndi embættinu frá 1994 til 1995, 2001 til 2006 og 2008 til 2011. Í stjórnartíð sinni var hann ákærður fyrir ýmsa fjárglæpi og skattsvik. Hann sagði af sér embætti í skugga ákæru fyrir að hafa greitt stúlku undir lögaldri fyrir kynlíf.


Tengdar fréttir

Berlu­sconi lagður inn á sjúkra­hús

Silvio Berlusconi, Evrópuþingmaður og fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, var lagður inn á sjúkrahús í gærkvöldi. Gekkst hann undir rannsóknir, en greint var frá því fyrr í vikunni að hann hafi greinst með kórónuveiruna.

Berlusconi yngir verulega upp

Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu er hættur með kærustu sinni til 12 ára, Francescu Pascale.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×