Viðskipti innlent

Viðar nýr fram­kvæmda­stjóri Kaptio

Atli Ísleifsson skrifar
Viðar Svansson var einn af stofnendum Tempo.
Viðar Svansson var einn af stofnendum Tempo. Kaptio

Viðar Svansson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Kaptio. Hann hefur starfað við alþjóðlega hugbúnaðargerð síðastliðin fimmtán ár.

Kaptio var stofnað árið 2012 og er alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki á sviði bókunar- og viðskiptatengslahugbúnaðar fyrir ferðaþjónustu. Höfuðstöðvar félagsins eru í Reykjavík og er það með starfsemi meðal annars í Bretlandi og Kanada.

Í tilkynningu kemu fram að Viðar hafi verið einn af stofnendum Tempo og leiddi þróun hugbúnaðar félagsins sem framkvæmdastjóri tækni og vöru og nú síðast sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar.

„Viðar flutti nýverið til Íslands frá Montréal í Kanada þar sem hann bjó um árabil og sótti sér dýrmæta reynslu við sókn fyrirtækja vestanhafs.

Viðar hefur mikla ástríðu fyrir upplýsingatækni í ferðaþjónustu og veitti íslenskri ferðaþjónustu ráðgjöf varðandi vefviðmótsgerð á árum áður, leiddi þróun á bókunarhugbúnaði Icelandair og var ábyrgur fyrir hugbúnaði tengdum Inspired By Iceland herferð Íslandsstofu.

Viðar er með M.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Oxford Háskóla og B.Sc. gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum á Akureyri. Meðan á dvöl hans við Oxford háskóla stóð, sótti hann starfsnám hjá Google og stundaði nám í nýsköpunarfræðum við Saïd Business School,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×