Sport

Nanna og Valgarð hrepptu Íslandsmeistaratitilinn í fjölþraut

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Íslandsmeistarar í fjölþraut 2021.
Íslandsmeistarar í fjölþraut 2021. Fimleikasamband Íslands

Valgarð Reinhardsson úr Gerplu og Nanna Guðmundsdóttir úr Gróttu stóðu uppi sem sigurvegarar á Íslandsmeistaramótinu í áhaldafimleikum í gær.

Valgarð Reinhardsson úr Gerplu, vann sinn fimmta Íslandsmeistaratitil í gær, rúmum þremur stigum á undan næsta manni. Nanna Guðmundsdóttir úr Gróttu vann í kvennaflokki og er þetta hennar fyrsti Íslandsmeistaratitill í fjölþraut. Mótið fór fram í Ármanni.

Valgarð fékk 79.000 stig fyrir æfingar sínar en hann hefur sigrað í fjölþraut árin 2015, 2017, 2018, 2019 og 2021. Þess má geta að ekkert Íslandsmót var haldið í fyrra sökum Covid-19. Í öðru sæti varð Jónas Ingi Þórisson sem var að keppa í fyrsta skipti í fullorðinsflokki með 75.950 stig. Í þriðja sæti með 71.700 stig var Eyþór Örn Baldursson.

Í kvennaflokki hafði Nanna Guðmundsdóttir úr Gróttu sigur úr býtum og var þetta hennar fyrsti Íslandsmeistaratitill í fjölþraut. Keppni dagsins var spennandi í kvennaflokki en einungis munaði hálfu stigi á milli Nönnu og Hildar Maju Guðmundsdóttur úr Gerplu. Nanna sigraði með 45.700 stig og Hildur Maja varð í öðru með 45.200 stig. Bronsið féll í skaut Margrétar Leu Kristinsdóttur úr Björk, en hún hlaut 43.800 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×