Fannar brá sér austur fyrir fjall nú fyrir helgi og er því sjálfur ekki staddur í Grindavík en er á heimleið. Hann kveðst hafa verið í góðu sambandi við aðgerðastjórn og viðbragðsaðila í Grindavík.
„Þetta virðist vera tiltölulega hóflegt gos og vel staðsett gagnvart Grindavík eins og útlit er núna. Aðgerðastjórn hefur verið virkjuð,“ segir Fannar.
„Menn eru rólegir, bjarminn sést frá bænum og staðsetningin eins og henni er lýst er mjög hagstæð fyrir okkur þannig að það virðist ekki vera nein hætta á ferðum eins og sakir standa, og kannski einna bestu.“
Þá telur hann að gosið hafi komið Grindvíkingum á óvart.
„Þetta var frekar óvænt. Það var einhvern veginn þannig ástand þegar leið á daginn að þetta væri mjög ólíklegt að eitthvað myndi gerast og frekar rólegt yfir þannig að ég brá mér aðeins austur fyrir fjall eftir nokkrar vikur og þá gerist þetta,“ segir Fannar.
„Við erum í sambandi við sérfræðinga Veðurstofunnar og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra klukkan tíu á hverjum einasta degi og það var eiginlega talið að þetta væri í rénun, allavega tímabundið, en aldrei að vita hvað myndi gerast. En þannig séð kom þetta á óvart.“
Uppfært klukkan 01:20
Fannar var kominn heim til Grindavíkur þegar Kristján Már Unnarsson ræddi við hann seinna um kvöldið.