Áñez var handtekin um helgina og á að sitja í fangelsi næstu fjóra mánuðina vegna ásakana saksóknara um að hún hafi átt þátt í að koma Evó Morales, fyrrverandi forseta, frá völdum árið 2019. Flokkur Morales komst aftur til valda í kosningum í fyrra.
Auk Áñez voru orku- og dómsmálaráðherrar í skammlífri ríkisstjórn hennar handteknir og sakaðir um hryðjuverk, uppreisn og samsæri í tengslum við valdarán. Handtökuskipanir á hendur aðgerðasinnum og fyrrverandi her- og lögregluforingjum hafa einnig verið gefnar út, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Samtök Ameríkuríkja (OAS) sögðu í yfirlýsingu í gær að réttarkerfið væri orðið að kúgunartæki stjórnarflokksins í Bólivíu og að það gæti ekki tryggt sanngjörn réttarhöld, hlutleysi og réttláta málsmeðferð. Eftirlitsmenn samtakanna töldu svik hafa verið framin í kosningunum árið 2019 sem urðu til þess að Morales hrökklaðist frá völdum.
Bólivísku saksóknararnir saka Áñez um að hafa unnið með bandamönnum sínum innan öryggissveita landsins til þess að þvinga Morales til að segja af sér í skugga harðra mótmæla í kjölfar umdeildra kosninga í landinu. Morales flúði land ásamt nokkrum leiðtogum flokks hans á þingi. Áñez, sem var leiðtogi lítils íhaldsflokks á þingi, tók þá við forsetaembættinu. Hún segist hafa fylgt ákvæðum stjórnarskrárinnar um hver tæki við embættinu.
Iván Lima, dómsmálaráðherra, segist ætla að krefjast þrjátíu ára fangelsisdóms yfir Áñez verði hún fundin sek.