Hingað til hefur rakningarteyminu tekist að rekja afbrigðið til farþega og íbúa sem höfðu nýlega verið í Suður-Afríku.
Sóttvarnayfirvöld í Bretlandi óttast því mjög að um samfélagssmit sé að ræða og hafa brugðið á það ráð að skima markvisst fyrir afbrigðinu á þeim stöðum þar sem afbrigðið hefur greinst með því að ganga í hús, senda íbúum sérstakt kórónuveirupróf sem þeir geta notað heima hjá sér auk þess sem sérstakar skimunarstöðvar hafa verið settar upp í þeim hverfum þar sem afbrigðið fannst.
Markviss skimun fer nú fram í Surrey, Lundúnum, Kent, Hertfordshire og Walsall samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins.
Á sama tíma gerði Boris Johnson, forsætisráðherra, lítið úr þeim möguleika að bóluefnin, sem í notkun eru, dugi ekki á suður-afríska afbrigðið.
Vísbendingar eru um að bóluefni Janssen gegn kórónuveirunni virki ekki nægilega vel á suður afríska afbrigðið því niðurstöður þriðja fasa prófana sýndu aðeins fimmtíu og sjö prósent virkni gegn veirunni í Suður-Afríku þar sem afbrigðið er í mikilli dreifingu en hátt í 72% virkni í Bandaríkjunum.