Fiskiskipið Víkingur kom til Reykjavíkur snemma í morgun frá Vopnafirði en þangað var skipið á leið til löndunar á kolmunna þegar skipstjórinn, Albert Sveinsson, var beðinn um kanna ábendingar frá togurum um loðnu. Í fréttum Stöðvar 2 lýsti Albert því sem hann sá á miðunum.

„Og komum fljótlega í loðnu. Þar var mikið að sjá. Þykkar og góðar lóðningar. Og fylgdum þessu norður eftir í 45 sjómílur.“
-Og allsstaðar loðna?
„Allsstaðar loðna.“
Öflug fiskleitartæki gerðu skipstjóranum kleift að skanna þrjá kílómetra út frá hvorri hlið. Albert er hins vegar ekki viss um að mæliaðferðir Hafrannsóknastofnunar gefi sömu mynd og hann sá.
„Það er nógu mikið af loðnu í mínum huga. En okkur finnst mælingareglurnar ekki vera alveg réttar.“
Og tortryggir breytingar sem gerðar voru fyrir einhverjum árum.
„Það þarf að mæla mun meira núna heldur en þurfti hérna áður. En maður vonar það besta.“

Bæði uppsjávarveiðiskip Brims, Venus og Víkingur, liggja núna í Sundahöfn í Reykjavík. Áhafnirnar bíða átekta eftir græna ljósinu frá fiskifræðingum.
„Við viljum fara að veiða, allavega fljótlega, svona þegar þetta fer að koma upp á grunnið.“
Í porti Hampiðjunnar á hafnarbakkanum bíður loðnunótin.
„Já. Við erum klárir. Það er bara að taka nótina um borð og fara,“ segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK-100.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: