Undanfarna mánuði hafa umfangsmikil mótmæli átt sér stað í Taílandi sem hafa að miklu leyti snúist að lýðræðisendurbótum og konungsfjölskyldunni. Mótmælendurnir hafa krafist þess að forsætisráðherrann segi af sér, að stjórnarskrá landsins verði breytt og breytingar verði gerðar á konungdæminu. Þeir vilja aukið lýðræði í Taílandi og að dregið verði úr valdi konungsins.
Samhliða því hefur þeim fjölgað töluvert sem hafa verið dæmdir fyrir að móðga konungsfjölskylduna. Frá því í sumar hafa rúmlega fjörutíu verið ákærðir á grundvelli þessara laga. Niðurfelling þeirra er meðal þess sem mótmælendur hafa krafist.
Sjá einnig: Vilja ríkidæmi konungsins í ríkissjóð
AFP fréttaveitan segir að lögunum um konungsfjölskylduna sé ætlað að vernda hana gegn níði, ógnunum og ófrægingu. Þau séu hins vegar reglulega notuð til gegn fólki sem hefur gagnrýnt konungsfjölskylduna.
Konan, sem heitir Anchan Preelerd, var handtekin árið 2015 og var hún tengd við stjórnanda hlaðvarps sem hefur lengi verið harður gagnrýnandi konungsfjölskyldunnar. Anchan var upprunalega í haldi í þrjú ár áður en henni var sleppt gegn tryggingu.
Samkvæmt frétt Reuters snúast brot hennar um það að dreifa myndböndum á Facebook og Youtube.
Í morgun var hún svo sakfelld í 29 ákæruliðum og var hún dæmd til 87 ára fangelsisvistar. Refsing hennar var þó helminguð vegna þess að hún ku hafa játað brot sín og var niðurstaðan 43 ár.
Fyrra metið var 35 ára dómur frá 2017.
Sérfræðingur sem blaðamaður AFP ræddi við segir mögulegt að dómnum sé ætlað að draga kjarkinn úr tælenskum mótmælendum.