Þetta kemur fram í tilkynningu Lyfjastofnunar Evrópu í morgun. Þar segir jafnframt að unnt sé að afgreiða umsóknina á svo skömmum tíma vegna þess að stofnunin hafi þegar farið yfir gögn um bóluefnið, sem AstraZeneca framleiðir í samstarfi við vísindamenn Oxfordháskóla.
Bólusetningar með bóluefni AstraZeneca eru þegar hafnar í Bretlandi. Lyfjastofnun Evrópu hefur veitt tveimur bóluefnum markaðsleyfi til notkunar í Evrópu; bóluefni Pfizer og Moderna.
Bólusetning með bóluefni Pfizer hófst skömmu fyrir áramót hér á landi. Þá komu fyrstu 1.200 skammtarnir af bóluefni Moderna til landsins í morgun.
Ísland hefur tryggt sér um 230 þúsund skammta af bóluefni AstraZeneca, sem duga fyrir um 115 þúsund einstaklinga.