The Guardian greinir frá þessu og segir að alls ellefu öldungadeildarþingmenn, sitjandi eða nýkjörnir, hafi heitið því að samþykkja ekki sigur Joes Biden í forsetakosningunum sem fram fóru í upphafi nóvember síðastliðins, nema tíu daga „neyðarendurskoðun“ fari fram á úrslitum úr þeim ríkum sem um ræðir.
„Í kosningunum 2020, líkt og kosningunum 2016, var hart barist og mjótt á munum ú mörgum sveifluríkjum. Í kosningunum 2020 var hins vegar um að ræða fordæmalausan fjölda ásakana um kosningasvik, brot á reglum og lélega eftirfylgni með kosningalögum, auk annarra ójafna í kosningaferlinu,“ segir í yfirlýsingu sem þingmannahópurinn gaf frá sér í dag.
Því telji þingmennirnir réttast að fram fari endurskoðun á úrslitum í þeim ríkjum sem forsetinn sjálfur hefur sagt að svindlað hafi verið á sér í. Telja þingmennirnir að slík rannsókn ætti að vera á forræði óháðrar nefndar sem öldungadeild þingsins myndi skipa.
Ólíklegt til að hafa áhrif
Ekki er talið líklegt að athæfi þingmannanna muni hafa nokkur áhrif á hver það verður sem verður settur í embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi en orð þingmannanna ríma vel við þá orðræðu sem hefur verið við lýði í Bandaríkjunum frá því ljóst varð að Joe Biden hafði betur gegn Trump forseta.
Sjálfur hefur Trump neitað að viðurkenna ósigur sinn, en Biden hlaut sjö milljónum fleiri atkvæði og endaði á því að fá 306 kjörmenn á móti 232 kjörmönnum Trumps. Síðan úrslitin lágu fyrir hefur framboð Trumps hafið hverja málsóknina á fætur annarri, sem flestum hefur verið vísað frá dómstólum.
Þrátt fyrir þrálátar fullyrðingar um að brögð hafi verið í tafli og að víðtækt kosningasvindl hafi fært Biden sigurinn hefur hvorki Trump né öðrum sem eru á sama máli tekist að færa fram nokkur sönnunargögn fyrir slíkum staðhæfingum.

Varaforsetinn fær ekki að handvelja kjörmannaatkvæði
Í gær hafnaði alríkisdómari í Texas lögsókn fulltrúadeildarþingmanns Repúblikana, Louie Gohmert, og Repúblikana í Arizona. Henni var ætlað að heimila Mike Pence, fráfarandi varaforseta, að hafna atkvæðum ákveðinna kjörmanna. Þann 6. janúar munu báðar deildir Bandaríkjaþings koma saman til þess að staðfesta úrslit kosninganna, ásamt varaforsetanum.
Athygli vekur að embætti Pence lagðist gegn lögsókninni og hvatti dómarann til þess að hafna málinu á þeim grundvelli að það kæmi varaforsetanum ekki við, lögsóknin ætti að beinast gegn þinginu.
Viðbúið er að staðfesting kosningaúrslitanna muni einnig mæta einhverri mótstöðu í fulltrúadeildinni, neðri deild Bandaríkjaþings. Þar eru Demókratar í meirihluta og því harla ólíklegt að mótbárur við staðfestingu úrslita muni hafa nokkuð að segja þar.
Þá hefur Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, sem eru í meirihluta, sagst mótfallnir því að atkvæði ákveðinna kjörmanna verði ekki tekin gild. Því er ekki líklegt að andstaða Cruz, Johnson og annara þingmanna muni nokkru skila.