Erlent

Fjórir teknir af lífi vegna hóp­nauðgunarinnar í Delí

Atli Ísleifsson skrifar
Akshay Thakur, einn árásarmannanna, leiddur í dómshúsið í Delí árið 2013.
Akshay Thakur, einn árásarmannanna, leiddur í dómshúsið í Delí árið 2013. EPA

Fjórir karlmenn hafa verið teknir af lífi eftir að hafa verið dæmdir til dauða vegna hópnauðgunar og morðs í höfuðborginni Delí sem skók Indland árið 2012.

BBC segir frá því að þeir Akshay Thakur, Vinay Sharma, Pawan Gupta og Mukesh Sing hafi verið teknir af lífi með hengingu í Tihar-öryggisfangelsinu í morgun. Eru þetta fyrstu aftökurnar í landinu frá árinu 2015.

Málið vakti gríðarlega athygli í Indlandi og víða annars staðar á sínum tíma, en fórnarlambið lést af sárum sínum, nokkrum dögum eftir að hafa verið nauðgað af sex mönnum í strætisvagni sem var á ferð. Málið leiddi til að miklar breytingar voru gerðar á indverskum hegningarlögum hvað varðar nauðganir.

Sjá einnig: Af­töku­dagur á­kveðinn í víð­frægu nauðgunar­máli í Ind­landi

Fórnarlambið, sem var 23 ára nemi í sjúkraþjálfun, gekk undir nafninu Nirbhaya –Sú óttalausa – í indverskum fjölmiðlum þar sem ekki var hægt að nafngreina konuna samkvæmt indverskum lögum.

Alls voru sex manns handteknir vegna árásarinnar. Einn þeirra, Ram Singh, fannst látinn í fangaklefa sínum í mars 2013 þar sem hann hafði svipt sig lífi. Annar hinna handteknu var sautján ára þegar árásin var gerð og var honum sleppt árið 2015 eftir að hafa afplánað þrjú ár í betrunarbúðum. Þrjú ár eru hámarksrefsing fyrir ungmenni á Indlandi.

Hinir dæmdu áfrýjuðu dauðadómnum til Hæstaréttar landsins þar sem þeir sóttust eftir að dómnum yrði breytt í lífstíðardóm. Hæstiréttur tók það þó ekki til greina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×