„Heilbrigðisþjónustan hefur ekki rúm til að mæta álaginu. Sums staðar verður það orðið okkur ofviða innan einhverra daga. Ef eftirspurnin eftir öndunaraðstoð verður meiri en framboðið þá stöndum við frammi fyrir hryllilegum ákvörðunum um hverjir lifa og hverjir deyja.“
Þetta segir Claudia Paoloni, forseti samtaka sjúkrahúslækna (HCSA) í samtali við Guardian.
Ákvarðanirnar munu meðal annars snúa að því hverjir eru lagðir inn á gjörgæsludeild og hverjir fá takmarkaða umönnun, hversu lengi veita á sjúklingi fulla meðferð ef hann virðist ekki vera að ná bata og einhver annar þarfnast meðferðar með sömu vélum, og hver fær öndunaraðstoð ef allar öndunarvélar eru í notkun, segir Paoloni.
Íhuga að tjalda fyrir utan spítalana
Paoloni varar við því að sjúkrahús gætu neyðst til að hætta að veita þjónustu sem tengist ekki Covid-19, jafnvel að framkvæma skurðaðgerðir til að fjarlægja krabbamein. Stjórnendur gætu þurft að spyrja sig að því hvort hægt sé að gera skurðaðgerðir þegar ekkert pláss er laust á gjörgæsludeildum. Eitthvað gæti komið upp á.
Simon Walsh, varaformaður ráðgjafanefndar Bresku læknasamtakanna (BMA) hefur greint frá því að sums staðar séu stjórnendur sjúkrahúsa að íhuga að koma upp tjöldum fyrir utan spítalana til að forgangsraða sjúklingum.
Um er að ræða aðgerðir sem venjulega er gripið til í kjölfar hamfaraviðburða á borð við hryðjuverkaárásir eða iðnaðaróhöpp.

Læknasamtök segja ástandið einna verst í suðausturhluta landsins, þar sem gjörgæsludeildir séu yfirfullar og skortur yfirvofandi bæði á vélum og jafnvel súrefni.
Sjúklingar fluttir og deildum breytt til að annast Covid-smitaða
Rætt hefur verið að bæta við viðbragðsstigi 5 vegna ástandsins í landinu en að jafnaði greinast nú daglega um 53.135 einstaklingar með Covid-19. Þá deyja 414 daglega af völdum sjúkdómsins.
Alls hafa 71.567 látið lífið í faraldrinum og ástandið er að yfirkeyra heilbrigðiskerfið.
Sumar gjörgæsludeildir í Lundúnum hafa gripið til þess neyðarúrræðis að flytja sjúklinga langar vegalengdir til að losa rúm og létta álagið. Þá hyggst Royal Free sjúkrahúsið flytja legudeildir barna á annað sjúkrahús til að geta tekið á móti fullorðnum Covid-19 sjúklingum.
Bráðadeild Barnet-spítala, sem Royal Free rekur, verður einnig breytt til að sinna Covid-19.
Stjórnendur Royal Free gera ráð fyrir að álagið á gjörgæsludeildum muni ná hámarki í kringum 4. janúar.
Today will be a difficult day, tomorrow may be tougher & the next couple of weeks are likely to be the busiest & most challenging we have ever faced in the NHS
— Richard (@RMitchell_NHS) December 29, 2020
You can help the people who will help you by doing the must-dos well: wear a mask, wash your hands, follow guidelines.