Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir daginn vera hjartnæmt augnablik sem beri vott um samstöðu. Nú sjái heimsbyggðin fyrir endann á erfiðu ári þar sem bóluefni hefði verið tryggt, einnig fyrir þau ríki sem stæðu utan Evrópusambandsins en væru aðilar að EES-samningnum.
„Við höfum einnig tryggt bóluefni fyrir EES-nágranna okkar, til að mynda Ísland og Noreg. Bólusetningar munu hjálpa okkur að fá okkar eðlilega líf til baka hægt og rólega. Þegar nógu margir hafa verið bólusettir getum við byrjað að ferðast, hitt vini okkar og fjölskyldu,“ sagði von der Leyen í myndbandi sem birt var í gær.
Today, we start turning the page on a difficult year. The #COVID19 vaccine has been delivered to all EU countries.
— Ursula von der Leyen (@vonderleyen) December 26, 2020
Vaccination will begin tomorrow across the EU.
The #EUvaccinationdays are a touching moment of unity. Vaccination is the lasting way out of the pandemic. pic.twitter.com/pYOj5vS2gV
Bólusetningarnar innan Evrópusambandsins er umfangsmikið verkefni, en alls búa 446 milljónir í þeim löndum sem eiga aðild að sambandinu. Yfir fjórtán milljónir þeirra hafa nú þegar greinst með kórónuveiruna og rúmlega 335 þúsund látið lífið af völdum veirunnar.
Þá var afhendingu bóluefnisins fagnað af einum flugmanni sem flaug yfir suðurhluta Þýskalands í gær, þar sem hann myndaði sprautu í loftinu yfir Þýskalandi sem mátti sjá á flugradar.

Evrópusambandið hefur nú þegar tryggt um tvo milljarða skammta af bóluefni frá hinum ýmsu framleiðendum samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins. Fyrsta afhending inniheldur bóluefni Pfizer sem framleitt er í verksmiðju lyfjaframleiðandans í Belgíu.
Á Íslandi er stefnt að því að efnið komi til landsins á mánudag og að bólusetningar hefjist á þriðjudag. Öll lönd fá tíu þúsund skammta til að byrja með, sem dugar til að bólusetja fimm þúsund manns. Búist er við að Ísland muni fá 3 til 4 þúsund skammta í hverri viku til loka mars á næsta ári.
Nú þegar bólusetning er að hefjast hefur verið greint frá nýju afbrigði, sem hingað til hefur verið kennt við Bretland. Afbrigðið sem um ræðir er talið vera allt að sjötíu prósent meira smitandi, þó ekkert bendi til þess að veikindi vegna þess séu alvarlegri eða að bóluefni virki ekki gegn því.
Afbrigðið hefur fundist í Svíþjóð, Spáni, Frakklandi, Danmörku, Hollandi sem og í Ástralíu og Japan en öll tilfelli má rekja til ferðalanga frá Bretlandi. Þá hefur það tvisvar fundist við landamæraskimun hér á landi, nú síðast 20. desember síðastliðinn.