Enski boltinn

Sex leik­menn Liver­pool í liði ársins hjá Jamie Carrag­her og Gary N­evil­le en enginn Sadio Mane

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jordan Henderson er í liðinu en Roberto Firmino og Sadio Mane ekki.
Jordan Henderson er í liðinu en Roberto Firmino og Sadio Mane ekki. Adam Davy/Getty Images

Gary Neville og Jamie Carragher eru hluti af sjónvarpsþættinum Monday Night Football sem fer fram, eðlilega, á mánudagskvöldum á Sky Sports.

Þar greina þeir leiki helgarinnar í enska boltanum sem og ræða málefni líðandi stundar innan fótboltans en í gær var komið að því að gera upp árið 2020 í enska boltanum.

Fyrrum knattspyrnumennirnir völdu lið ársins og það kom ekki mörgum á óvart að leikmenn Englandsmeistara Liverpool voru í miklum meirihluta. Þeir áttu alls sex leikmenn.

Alisson var í markinu og í vörninni voru þeir Andy Robertson, Virgil van Dijk og Trent Alexander-Arnold. Jordan Henderson var á miðjunni og Mohamed Salah var einn af þremur fremstu mönnunum. Sadio Mane komst ekki í liðið né Roberto Firmino.

Tottenham átti tvo leikmenn í liðinu. Son Heung-min á vinstri vængnum og Harry Kane  fremstur.

Á miðjunni með Henderson voru leikmennirnir frá erkifjendunum Kevin de Bruyne [Man. City] og Bruno Fernandes [Man. United].

Það var heldur enginn Hary Maguire í liðinu en fjórða og síðasta sætið í vörninni tók Conor Coady, leikmaður Wolves. Hann braut sér inn í enska landsliðið og Carragher og Neville verðlaunuðu hann með sæti í liði ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×