Pell fjallar í bókinni um dómsmálið gegn sér og málefni líðandi stundar, bæði innan kirkjunnar og utan. Í því samhengi kallar hann Trump „okkar villimann“ en með „við“ á hann við kristna menn.
Á blaðamannafundi í gær sagði hann að kristnir menn hefðu þá skyldu að stíga fram opinberlega og að Bandaríkjaforseti hefði lagt sitt á vogarskálarnar, ekki síst með tilnefningum sínum á dómurum í hæstarétt landsins. Tveir af þeim þremur sem Trump hefur fengið skipaða eru kaþólskir.
Að öðru leyti sagðist Pell ekki viss um að Trump hefði sýnt hinu lýðræðislega ferli næga virðingu; það væri mikilvægt að allir upplifðu að hafa jöfn tækifæri hvað kosningar varðaði. Ef svo væri ekki þyrfti að færa fyrir því óyggjandi sönnunargögn; það væri óábyrgt að grafa undan trausti á opinberum stofnunum.
Reykurinn sést þótt eldurinn hafi ekki fundist
Pell hafði yfirumsjón með fjármálum Vatíkansins en lét af störfum árið 2017, þegar hann var sakaður um að hafa misnotað tvo 13 ára gamla kórdrengi í dómkirkjunni í Melbourne árið 1996.
Við fyrstu umferð fyrir dómi komst kviðdómurinn ekki að niðurstöðu í málinu en hann var fundinn sekur samhljóða í annað sinn og dæmdur í sex ára fangelsi.
Áfrýjunardómstóll staðfesti niðurstöðuna en henni var snúið þegar málið fór fyrir hæstarétt.
Kardinálinn hefur sagt að fyrir liggi vísbendingar, en ekki sönnun, um að málið gegn honum tengist viðleitni hans til að gera úrbætur á fjármálum Vatíkansins.
„Ég er nokkuð öruggur um að peningar fóru frá Róm til Ástralíu á þessum tíma en ég hef enga sönnun fyrir því hvar þeir enduðu,“ segir hann. Sagði hann reykinn sjást, þótt eldurinn hefði ekki fundist.
Pell sagðist ekki hafa í hyggja að sækja mál á hendur ástralska ríkinu og krefjast skaðabóta en hann ver nú tíma sínum í Sydney og Vatíkaninu.