Erlent

Flýgur til Brussel eftir að 90 mínútna símtal skilaði engu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Getty/WPA Pool

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands mun fljúga til Brussel í vikunni til fundar við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í von um að viðskiptasamningar náist. Johnson og von der Leyen ræddu saman í 90 mínútur í síma í kvöld en án árangurs.

Þetta kemur fram í frétt BBC og vísað í sameiginlega yfirlýsingu þeirra Johnsons og von der Leyen sem send var út í kvöld. Fram kemur í yfirlýsingunni að ekki sé orðinn til grundvöllur til samninga.

Enn sé hart tekist á um jöfn samkeppnisskilyrði, stjórnskipulag og fiskveiðar. Von der Leyen og Johnson hafi þess vegna falið yfirmönnum samninganefnda sinna að taka saman yfirlit yfir það sem helst ber í milli. Þessi atriði verði rædd á fundi í Brussel, að bæði Johnson og von der Leyen viðstöddum, á næstu dögum.

BBC hefur eftir heimildarmanni sínum innan bresku ríkisstjórnarinnar að samkomulag gæti verið úr sögunni eftir að símtalið fór út um þúfur í kvöld. Staðan sé í raun sú sama og þegar viðræðum var frestað á föstudag.

Litið er á viðræðulotuna nú sem lokatilraun til að reyna að ná samningum áður en Bretar hverfa formlega og að fullu úr Evrópusambandinu um áramót.

Ef ekki nást samningar mun landamæraeftirlit og tollaálögur verða teknar upp á milli Bretlands og ESB. Breska viðskiptaráðið hefur varað við því og sagt breska verslunarmenn illa undirbúna undir þær breytingar.


Tengdar fréttir

John­son og Von Der Leyen funda vegna Brexit-patt­stöðu

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Ursula Von Der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, munu funda síðar í dag og er markmið fundarins að leysa úr pattstöðunni sem myndast hefur í samningsgerð fríverslunarsamnings sem taka á gildi eftir að Bretland gengur formlega úr ESB um áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×