Lyfjafyrirtækið Moderna mun selja ríkjum heims hvern skammt af bóluefni sínu við kórónuveirunni á 25 til 37 Bandaríkjadali, að því er Reuters hefur eftir forstjóra fyrirtækisins. Það samsvarar um 3.400 til 5.000 krónum á núverandi gengi.
„Bóluefnið okkar mun því kosta um það bil það sama og flensusprauta, sem kostar á bilinu 10 til 50 dali,“ segir Stephane Bancel, forstjóri Moderna.
Moderna hefur greint frá því að bóluefnið sem fyrirtækið hefur unnið að því að þróa veiti 94,5 prósent vörn gegn kórónuveirunni. Er sú tala byggð á bráðabirgðaniðurstöðum seinni stiga klínískra prófana á bóluefninu.
Gáfu neyðarleyfi á lyfið sem Trump fékk
Þá greinir Washington Post frá því að Matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnun Bandaríkjanna hefði í gær veitt neyðarleyfi fyrir notkun lyfs sem Donald Trump Bandaríkjaforseta var gefið þegar hann fékk Covid-19 í síðasta mánuði.
Lyfið er framleitt af fyrirtækin Regeneron Pharmaceuticals og er ætlað að koma í veg fyrir að kórónuveirusjúklingar veikist alvarlega, með því að líkja eftir náttúrulegum vörnum mannslíkamans við kórónuveirusmiti.