Breski raðmorðinginn Peter Sutcliffe, sem í breskum fjölmiðlum hefur verið kallaður „Yorkshire Ripper“, er látinn, 74 ára að aldri. Hann lést af völdum Covid-19.
Sutcliffe var dæmdur fyrir morð á þrettán konum í norðurhluta Englands á áttunda áratugnum. Þá reyndi hann að bana sjö konum til viðbótar.

Sky News segir frá því að Sutcliffe hafi dáið á Háskólasjúkrahúsinu í Norður-Durham, um fimm kílómetrum frá fangelsinu þar sem hann afplánaði sinn dóm. Hann var sendur á sjúkrahúsið eftir að hafa greinst með kórónuveiruna, en heimildir Sky herma að hann hafi neitað að þiggja læknismeðferð eftir að hafa smitast í fangelsinu í Durham.
Sutcliffe ólst upp í Vestur-Jórvíkurskíri, gekk í hjónaband árið 1974 en varð á þessum tíma heltekinn af vændiskonum. Vitað er að seint á sjöunda áratugnum fór hann að ráðast á konur, en fyrsta morðið sem vitað er um framdi hann árið 1975 þegar hann drap hina 28 ára Wilmu McCann, fjögurra barna móður frá Leeds.
Á næstu fimm árum hélt hann morðunum áfram í Jórvíkurskíri og annars staðar í norðvesturhluta Englands. Morðinn vöktu mikinn óhug á sínum tíma og hvatti lögregla á ákveðnum stöðum konur til að vera ekki einar á ferð að næturlagi.
Hann var loks handtekinn árið 1981 og síðar dæmdur.