Skoðun

Ein manneskja – eitt atkvæði

Arnar Kjartansson skrifar

Augu okkar allra hafa verið á bandarísku forsetakosningunum síðastliðna viku, enda hafa úrslit hennar áhrif á ekki bara bandaríkjamenn, heldur heiminn allan. Bandaríkin búa við nokkuð sérstakt kosningakerfi og í aðdraga kosninga vakna oft upp spurningar af hverju kerfið er eins og það er. Jafnvel vakna spurningar um kerfið okkar Íslendinga sem er enn í dag heldur furðulegt, byggir alls ekki á jöfnum grunni kjósenda og brýtur á reglum Feneyjarnefndarinnar um góða starfshætti í kosningamálum. Fyrir hinn almenna kjósenda virðist landið styðja við svokallað „ein manneskja – eitt atkvæði“, en svo er aldeilis ekki.

Þegar við göngum til þingkosninga, þá er landinu skipt upp í kjördæmi. Kjördæmin eiga x marga þingmenn en þeim er ekki skipt upp eftir mannfjölda á kjördæminu. Til dæmis eru kjósendur á kjörskrá að baki hverjum þingmanni í Norðvesturkjördæmi 2.665 (þar sem talan er lægst) á meðan í Suðvesturkjördæmi eru það 4.856 kjósendur. Þetta þýðir að ef þingmaður er í framboði í Suðvesturkjördæmi þá þarf sá frambjóðandi að fá 82% fleiri atkvæði til að vera kjörinn á þing heldur en frambjóðandi á Norðvesturkjördæmi. Einnig þýðir þetta að atkvæði kjósanda á Suðvesturkjördæmi gildir töluvert minna heldur en atkvæði kjósanda á Norðvesturkjördæmi.

Ef við lítum til Norðurlandanna, þá er misvægi atkvæða lítið sem ekkert. Í Svíþjóð eru 29 kjördæmi og er þingsætum dreift á þau eftir fjölda kosningabærra manna. Í Finnlandi nota þeir magnstuðull sem ræður væginu milli atkvæðamagns og fjölda þingsæta. Í Danmörku var misvægi atkvæða breytt árið 1948. Eins og þú sérð lesandi góður, þá erum við langt á eftir nágrannaþjóðum okkar.

Þetta brýtur því á grundvallarrétti fólks að með atkvæði þínu hafir þú jafnan rétt til þess að hafa áhrif á hverjir komast til valda. Því er sú krafa um að jafnað verði út atkvæðavægi ekki bara lýðræðisleg heldur er þetta jafnréttismál. Á þinginu liggur fyrir frumvarp Viðreisnar um jöfnun atkvæðavægi, en verði frumvarpið að lögum þá mun fjölga þingmönnum í bæði Suðvestur, Reykjavíkurkjördæmi Norður og Reykjavíkurkjördæmi Suður. Mun það færa okkur inn í nútímann, færa okkur nær nágrannaþjóðum okkar og stuðla að jöfnum réttinda kjósenda.

Höfundur er forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar, í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×