Fótbolti

Gærdagurinn ekki alslæmur fyrir Solskjær-fjölskylduna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær ásamt sonum sínum, Noah og Elijah, eftir æfingaleik Manchester United og Kristiansund í fyrra. Noah Solskjær kom inn á fyrir Kristiansund gegn liði föðursins.
Ole Gunnar Solskjær ásamt sonum sínum, Noah og Elijah, eftir æfingaleik Manchester United og Kristiansund í fyrra. Noah Solskjær kom inn á fyrir Kristiansund gegn liði föðursins. getty/Trond Tandberg

Þótt strákarnir hans Ole Gunnars Solskjær í Manchester United hafi tapað fyrir Arsenal, 0-1, í ensku úrvalsdeildinni var gærdagurinn ekki alslæmur fyrir Solskjær-fjölskylduna.

Elsti sonur Solskjærs, Noah, lék nefnilega sinn fyrsta leik í norsku úrvalsdeildinni í gær. Hann kom inn á sem varamaður þegar Kristiansund tapaði fyrir toppliði Bodø/Glimt, 2-3, á heimavelli. Alfons Sampsted lék allan leikinn fyrir Bodø/Glimt og lagði upp sigurmark liðsins.

Noah kom inn á undir lokin og var næstum því búinn að leggja upp mark á þeim stutta tíma sem hann var inni á vellinum.

Noah hefur verið hjá Kristiansund síðan 2014. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið félagsins þegar Kristiansund mætti United í æfingaleik síðasta sumar. Lið föður hans hafði betur, 0-1, með marki Juans Mata.

Ole Gunnar er frá Kristiansund og hóf ferilinn með Clausenengen þar í borg. Kristiansund BK, felagið sem Noah leikur með, varð til við samruna Kristiansund FK og Clausenengen 2003. Kristiansund er í 6. sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

Noah fæddist 8. júní 2000 og er því tvítugur að aldri. Hann er elsta barn Ole Gunnars og Silje Solskjær. Hann á yngri bróður, Elijah, og systur, Karna, sem er í unglingaliði United.

Noah er örvfættur miðjumaður sem þykir búa yfir góðri tækni og lesa leikinn vel.


Tengdar fréttir

Arsenal sótti loks sigur á Old Trafford

Arsenal gerði sér lítið fyrir og lagði Manchester United 1-0 á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Markið skoraði Pierre-Emerick Aubameyang úr vítaspyrnu í síðari hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×