Erlent

Skoða skólp til að finna hópsýkingar fyrr

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/Andreas Arnold

Níutíu skólphreinsistöðvar um gervallt Bretland munu reyna að greina kórónuveiruna í skólpi í von um að hægt sé að greina staðbundnar hópsýkingar fyrr en áður.

Skólphreinistöðvarnar eru staðsettar í Wales, Englandi og Skotlandi en hugmyndin kviknaðu eftir að vísindamenn komust að því að hægt væri að greina leifar veirunnar í úrgangi frá mönnum. Tilraunaverkefni var sett af stað í skólphreinsistöð í Plymouth á Englandi þar sem hægt var að greina smit á svæðinu sem ekki hafði verið vitað um, þar sem smitberar voru einkennalausir.

Vísindamenn í Skotlandi hafa einnig fundið vísbendingar um að veiruna eða leifar hennar sé að finna í sýnishornum sem tekin voru úr skólphreinsistöðvum víða um Skotland. Niðurstöðurnar þykja stemma við þau svæði þar sem kórónuveiran hefur greinst í Skotlandi.

Þá segir í frétt BBC að aðferðin geti reynst mjög gagnleg í þeim tilfellum á svæðum þar sem einkennalaus smit leynist, með því að prófa skólpvatnið sé hægt að fá vísbendingar um að smit sé til staðar á þeim svæðum sem skólpstöðvarnar sinna.

Niðurstöðum prófana úr skólpstöðvunum verður deilt með smitrakningaryfirvöldum í Bretlandi, í von um að hægt verði að greina veiruna fyrr á þeim stöðum þar sem hún hefur breitt úr sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×