Amernar og Aserar berjast enn í Nagorno-Karabakh á sama tíma og forsvarsmenn Bandaríkjanna, Rússlands og Frakklands leita leiða til að binda enda á átökin. Viðræður eiga að hefjast í Genf í Austurríki í dag.
Jeyhun Bayramov, utanríkisráðherra Aserbaídsjan, mun hitta erindreka Bandaríkjanna, Rússlands og Frakklands, í dag. Svo er búist við að Zohrab Mnatsakanyan, utanríkisráðherra Armeníu, fundi með þeim í Moskvu á mánudaginn.
Armenía og Aserbaídsjan hafa lengi deilt um yfirráð í Nagorno-Karabakh í Kákakusfjöllum en stillt var til friðar með samkomulagi árið 1994. Rússar, Frakkar og Bandaríkjamenn hafa haft frumkvæði að því að miðla málum á milli ríkjanna síðan.
Í brýnu sló á milli armenska og aserska hersins undir lok síðasta mánaðar við Nagorno-Karabakh, landlukt svæði innan Aserbaídsjan sem armenskir aðskilnaðarsinnar stjórna. Tugir manna hafa fallið í skærum síðustu daga.
Svæðið heyrir formlega undir Aserbaídsjan en er í raun stýrt af Armenunum sem búa þar. Aserar krefjast þess að Armenar yfirgefi héraðið en því hafa Armenar hafnað og segja Nagorno-Karabakh hluta af Armeníu.
Átökin hafa valdið áhyggjum um að Tyrkir, sem standa við bakið á Aserbaídsjan, og Rússar, sem eru með varnarsáttmála við Armeníu, gætu dregist inn í þau. Tyrkir hafa þegar verið sakaðir um að senda málaliða á svæðið.
Yfirvöld í Aserbaídsjan hafa sakað Armena um að gera stórskotaliðsárás á borgina Ganja, sem er fjarri Nagorno-Karabakh og aðra bæi, samkvæmt frétt Reuters. Einn almennur borgari er sagður hafa fallið.
Embættismenn í Nagorno-Karabakh segja að 350 hermenn heimastjórnarinnar hafi fallið í átökum við Asera. Þar að auki hafi 19 almennir borgarar dáið og fjölmargir særst. Armenar hafa þar að auki sakað Asera um að gera árás á gamla og fræga kirkju í Nagorno-Karabakh.
Hér má sjá tíst frá blaðakonu AFP sem sýnir skaðann sem kirkjan varð fyrir.
#Azerbaijan'i armed forces targeted the Saint #Ghazanchetsots Cathedral in #Shushi from multiple rocket launcher pic.twitter.com/tgw7n7S47e
— Anna A. Naghdalyan (@naghdalyan) October 8, 2020