Viðskipti innlent

Skráði sig fyrir stórum hlut í Icelandair

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Ballarin hefur skráð sig fyrir stórum hlut í Icelandair samkvæmt talsmanni hennar hér á landi. 
Ballarin hefur skráð sig fyrir stórum hlut í Icelandair samkvæmt talsmanni hennar hér á landi.  Vísir/Baldur Hrafnkell

Talsmaður kaupsýslukonunnar Michele Roosevelt Edwards Ballarin segir að hún hafi gert bindandi tilboð í hlutafjárútboði Icelandair. Samkvæmt heimildum fréttastofu hljóðar tilboðið upp á sjö milljarða króna.

Ballarin er ekki ókunn íslenskum flugheimi en hún stefndi að því að stofna flugfélag á Íslandi og keypti að lokum WOW air af þrotabúi félagsins.

Ballarin kom til landsins á þriðjudag í tilefni af hlutafjárútboði Icelandair sem hófst í gær og lauk klukkan fjögur í dag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu gerði Ballarin tilboð í dag upp á um sjö milljarða íslenskra króna. Þetta er helmingur þeirra upphæðar sem verið er að reyna afla með hlutafjárútboðinu til viðbótar við loforðin frá bönkunum. Ballarin yrði þá stærsti einstaki hluthafinn en heimildir fréttastofu herma að hún vonist til að halda á 25% hlut í Icelandair eftir kaupin.

„Mér finnst nú ekki rétt að ég sé að staðfesta ákveðna tölu en hún kom nú ekki hingað til að vera með minniháttar þátttöku þannig það er vissulega verið að tala um háar fjárhæðir sem hún er að spá í og ef til vill er nú þegar búin að sækjast eftir,“ segir Gunnar Steinn Pálsson, almannatengill sem hefur aðstoðað Ballarin hér á landi.

Hún hafi lengi haft áhuga á Íslandi sem samgöngumiðstöð vegna landfræðilegrar legu landsins og eigi nú þegar vörumerkið WOW air.

„Núna þegar Icelandair er líka í vandræðum og hún hefur fjárhagslegar aðstæður til að taka þátt í að leysa slíkan vanda þá er eðlilegt að hún hugsi með sér hvort hún geti með einhverjum hætti slegið þessu saman,“ segir Gunnar Steinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×