Erlent

Gróðureldar orðnir að pólitísku bitbeini

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðsmenn í Kaliforníu berjast við gróðureld.
Slökkviliðsmenn í Kaliforníu berjast við gróðureld. EPA/Etienne Laurent

Minnst 35 eru látnir vegna þeirra fjölmörgu gróðurelda sem loga eða hafa logað á vesturströnd Bandaríkjanna. Íbúar Kaliforníu, Oregon og Washington hafa orðið fyrir barðinu á sögulegu eldhafi en eldarnir hafa brunnið hraðar og meira en nokkru sinni áður. Eldarnir hafa þó orðið að pólitísku bitbeini milli Demókrata og Repúblikana.

Demókratar segja ástandið vera til komið vegna loftslagsbreytinga. Ríkisstjórn Donald Trump og bandamenn hans segja að slæmri umhirðu skóga og gróðurlendis sé um að kenna.

Forsetinn er nú á leið til McClellangarðs í Kaliforníu og þar ætlar hann að hitta Gavin Newsom, ríkisstjóra.

Newsom gekk um brunarústir í Kaliforníu á föstudaginn og gagnrýndi hann aðila sem afneita loftslagsbreytingum fyrir „hugmyndafræðilegt kjaftæði“.

„Umræðunni um loftslagsbreytingar er lokið. Komdu bara til Kaliforníu og skoðaðu breytingarnar með berum augum,“ sagði Newsom.

Samkvæmt AP fréttaveitunni ítrekaði hann að íbúar Kaliforníu hefðu nýverið upplifað heitasta ágústmánuð frá því mælingar hófust og um 14 þúsund eldingar hefðu kveikt hundruð elda í ríkinu. Þar á meðal hefðu fimm af tíu stærstu gróðureldum í sögu Kaliforníu logað á þessu ári.

Ríkisstjórar sameinaðir

Jay Inslee, ríkisstjóri Washington, sagði i gær að það væri óþolandi að á sama tíma og íbúar vesturstrandarinnar stæðu frammi fyrir þessum áskorunum, væri forseti Bandaríkjanna, að fara með rangar fullyrðingar um ástandið.

Kate Brown, ríkisstjóri Oregon, sagði einnig í gær að ástandið væri til marks um loftslagsbreytingar. Hún sagði að á hefðbundnu ári brenni um hálf milljón ekra að jafnaði. Bara í síðustu viku hefðu milljón ekrur brunnið í ríkinu. Oregon hefði gengið í gegnum mikla þurrka.

Hún sagði ástandið vera áminningu um að grípa þyrfti til aðgerða til að sporna gegn loftslagsbreytingum.

Trump hefur lengi haldið því fram að stærsta ástæðan fyrir skógareldum á vesturströnd Bandaríkjanna sé að dauðar greinar og tré séu ekki rakaðar á brott. Umhirða skóga sé ekki nægjanleg. Ítrekaði hann það á kosningafundi í gærkvöldi.

Árið 2018 staðhæfði hann að ástæða þess hve fátíðir skógareldar væru í Finnlandi, væri vegna þess að Finnar rökuðu sína skóga.

Finnar gerðu mikið grín að ummælum forsetans.

Borgarstjóri Los Angeles gagnrýndi ríkisstjórn Bandaríkjanna í gær og sakaði Trump um að sýna ástandinu lítinn áhuga vegna þess hve íbúar vesturstrandarinnar eru vinstri sinnaðir, heilt yfir.

„Hann á eftir að koma hingað og segja okkur að hann sé að senda okkur hrífur en ekki meiri hjálp. Við þurfum raunverulega hjálp, ekki byggða á því hvaða flokk við erum skráð í eða hvernig við kusum,“ sagði Eric Garcetti, borgarstjóri Los Angeles, í viðtali á CNN.

Í frétt Politico segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Trump virðist láta pólitík hafa áhrif á ákvarðanir sínar og umræðu. Það hafi hann einnig gert í faraldri nýju kórónuveirunnar.

Í upphafi faraldursins hafi hann til að mynda gagnrýnt Andrew Cuomo, ríkisstjóra New York, ítrekað. Í kjölfarið hefur hann sömuleiðis gagnrýnt aðra demókrata harðlega og ítrekað sakað þá um að bregðast íbúum varðandi faraldurinn.

Þá hafa fregnir borist af því að starfsmenn Hvíta hússins hafi þar að auki ákveðið fyrr á árinu að draga úr viðbrögðum vegna faraldursins þar sem hann kom þá verst niður á íbúum ríkja þar sem ríkisstjórar voru Demókratar.


Tengdar fréttir

Hræðast að ó­veður muni dreifa enn frekar úr eldunum

Veðurstofa Bandaríkjanna hefur gefið út rauða viðvörun vegna mikils óveðurs sem nálgast nú vesturströnd landsins. Veðrið boðar ekki gott, en miklum vindum og engri rigningu er spáð, og talið er að gróðureldarnir sem þar geisa muni dreifast enn meira. 

Tuga saknað vegna eldanna í Oregon

Yfirvöld í Oregon-ríki í Bandaríkjunum segja að tuga fólks sé saknað vegna skógar- og gróðureldanna sem loga glatt í ríkinu. Eldar loga einnig í fleiri ríkjum, en hvað mest í Kaliforníu og Washington.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×