Tíu ára stúlkur ætla að leita að týndum köttum í Vesturbænum í vetur. Þær hafa stofnað dýrafélag og eru með ýmsan búnað og ráð til að auðvelda leitina.
Eftir að vinkonurnar Birna og Brynja Lind sáu að auglýst var eftir týndum ketti í grennd við skólann sinn ákváðu þær að byrja að leita. Þegar þær hringdu í númerið á miðanum kom í ljós að kötturinn hafði skilað sér en það var þá sem þær fengu hugmyndina um að stofna Dýrafélag sem sérhæfir sig í að leita af köttum.
„Það heitir dýrafélagið BB útaf því ég er Brynja og hún er Birna og það er fyrsti stafurinn,“ segir Brynja.
Móðir Brynju setti auglýsingu um nýstofnaða félagið fyrir þær á Vesturbæjarsíðuna á Facebook, en stelpunum er alvara.

„Við höfum aldrei fengið verkefni sem við eigum að leysa, við höfum bara fengið: „Oh þetta er svo krúttlegt“ eða eitthvað þannig,“ segir Birna.
Þrátt fyrir ekkert formlegt verkefni enn sem komið er hafa þær i nógu að snúast með að reyna finna ketti sem þær sjá að lýst hefur verið eftir.
Þær eru svo sannarlega tilbúnar í krefjandi verkefni og hvetja Vesturbæinga sem eru að leita að kettinum sínum að hafa samband.