Innlent

Læknar halda sig frá samkomum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heilbrigðisstarfsfólk hefur verið beðið um að fresta utanlandsferðum sínum vegna kórónuveirunnar.
Heilbrigðisstarfsfólk hefur verið beðið um að fresta utanlandsferðum sínum vegna kórónuveirunnar. Vísir/Vilhelm

Læknafélag Íslands hefur frestað fundum sem fara áttu fram á vegum félagsins í kvöld og á morgun vegna kórónuveirunnar. Fram kemur á heimasíðu félagsins að íslenskt heilbrigðiskerfi sé meðal annars vegna smæðar sinnar viðkvæmt og afdrifaríkt gæti verið ef upp koma smit og veikindi hjá læknum.

Fjölgun staðfestra smitaðra hefur vaxið hratt hérlendis síðastliðna sólarhringa og eru nú orðin tuttugu. Ekkert tilfelli hefur verið rakið til smitunar innanlands. Læknafélagið minnir á að margt sé á huldu varðandi hegðun veirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum.

Á fundinum í kvöld átti að fjalla um skýrslu átakshóps heilbrigðisráðuneytisins. Á morgun var á dagskrá formannafundur sérgreinafélaga.

„Jafnframt fer LÍ þess á leit við lækna að þeir fresti öðrum fundum og þátttöku í samkomum sem ekki telst nauðsynleg eða getur beðið á meðan það er að skýrast hvert umfang faraldursins verður. Landlæknir hefur verið upplýstur um þessa ákvörðun félagsins.“

Eins og fram hefur komið hefur verið óskað eftir því að heilbrigðisstarfsfólk að fresta utanlandsferðum vegna veirunnar. 

Biðla til fólks að lesa sér til fyrir símtal

Þessu tengt vakti Landlæknis athygli á því fyrr í dag að sem flestir sem hafi spurningar varðandi kórónuveirunnar leit fyrst upplýsinga á heimasíðu embættis Landlæknis fremur en að hringja í embættið. Miklar annir séu hjá embættinu.

„Auk starfsmanna sóttvarnasviðs, sóttvarnalæknis og landlæknis sinnir fjöldi annarra starfsmanna verkefnum sem tengjast viðbúnaði vegna veirusjúkdómsins COVID-19.

Starfsmenn gera sitt ítrasta til að sinna einnig öðrum mikilvægum verkefnum en ljóst er að grípa þarf til forgangsröðunar. Málsmeðferð vissra erinda mun því lengjast og verða hlutaðeigandi upplýstir til samræmis. Fólk er beðið um að sýna biðlund þeirri fordæmalausu stöðu sem uppi er.“

Þau verkefni sem verði í forgangi séu, auk sóttvarna og lýðheilsumála þeim tengdum, eftirlit og ráðgjöf vegna heilbrigðisþjónustu, rekstur og viðhald rafrænna upplýsingakerfa og gagnagrunna, veiting starfsleyfa heilbrigðisstétta, símsvörun og rekstur embættisins. Að sjálfsögðu verði öðrum brýnum málum sem upp kunna að koma sinnt.

Eindregið er óskað eftir að þeir sem leita upplýsinga í tengslum við COVID-19 nýti sér upplýsingar á heimasíðu embættis landlæknis, fremur en að hringja í embættið. Ef einstaklingar sem gætu hafa verið útsettir fyrir smiti, t.d. hafa verið á áhættusvæði eða umgengist smitaða, finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmer +354 544-4113) varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×