Elvar Örn Jónsson gerði fimm mörk í sigri Skjern í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta. Alexander Petersson stóð fyrir sínu en Þráinn Orri Jónsson gat ekki komið í veg fyrir tap hjá sínum mönnum er þeir öttu kappi við lærisveina Guðmundar Guðmundssonar, landsliðsþjálfara Íslands, í Melsungen.
Elvar Örn Jónsson skoraði fimm mörk þegar Skjern lagði KIF Kolding af velli á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta. Lokatölur 31-28 Skjern í vil eftir að liðið hafði verið 15-14 yfir í hálfleik. Björgvin Páll Gústavsson átti ekki sinn besta leik í marki Skjern en það kom ekki að sök. Hann varði aðeins eitt af níu skotum sem hann fékk á sig.
Skjern er í 5. sæti deildarinnar með 25 stig þegar 22 umferðum er lokið.
Alexander Petersson skoraði tvö mörk í öruggum sjö marka sigri sigri Rhein Neckar-Löwen á TSV Hannover-Burgdorf í þýsku úrvalsdeildinni. Leiknum lauk 30-23 Löwen í vil en liðið hafði leitt með þremur mörkum í hálfleik, 15-12.
Löwen eru í 6. sæti þýsku deildarinnar með 28 stig eftir 24 umferðir.
Þráinn Orri Jónsson skoraði eitt mark í tveggja marka tapi Bjerringbro-Silkeborg á útivelli gegn MT Melsungen í 4. umferð A-riðils EHF bikarkeppninnar. Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands, tók við þjálfun Melsungen í vikunni. Lærisveinar Guðmundar reyndust sterkari aðilinn allan tímann og leiddu 18-14 í hálfleik. Þráinn og félagar minnkuðu muninn niður í 35-33 en nær komust þeir ekki og reyndust það lokatölur leiksins.
Bæði lið eru með fjögur stig þegar fjórum leikjum af sex er lokið.
