Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi í Hollywood, undirbýr nú gerð heimildarmyndar um Bitcoin-málið svokallaða sem vakti heimsathygli árið 2018. Búist er við að tökur hefjist í apríl, meðal annars á Íslandi.
Í frétt Screen Daily um málið segir að heimildarmyndin muni aðallega snúast um Sindra Stefánsson og tvö aðra ónafngreinda Íslendinga sem sakfelldir voru fyrir aðild sína að stórfelldum þjófnaði á tölvubúnaði. Alls voru sjö sakfelldir fyrir aðild sína að málinu. Sindra hlaut þyngsta dóminn, fjögurra og hálfs árs fangelsi.
Bitcoin-málið vakti heimsathygli og vakti strok Sinda ekki síst mikla athygli. Ítarlega var fjallað um málið í fjölmiðlum hér á landi, sem og erlendis. Varðaði það stórfelldan þjófnað á tölvubúnaði úr þremur gagnaverum, tveimur í Reykjanesbæ og einu í Borgarnesi í desember 2017 og janúar 2018. Tölvurnar voru notaðar til að grafa eftir rafmyntinni Bitcoin og hefur búnaðurinn enn ekki fundist.
Þremenningarnir sagðir eiga að endurleika lykilatriði
Í frétt Screen Daily segir að markmiðið sé að fá þremenninganna til þess að endurleika lykilatriði í atburðarrásinni. Palomar Pictures, framleiðslufyrirtæki Sigurjóns framleiðir myndina ásamt Stöð 2, að því er fram kemur á Screen Daily. Reiknað er með að tökur hefjist í apríl og eiga þær að fara fram á Íslandi, á Spáni og í Bandaríkjunum.
Sem fyrr segir vakti málið mikla athygli og hafa vinsæl bandarísk tímarit á borð við GQ og Vanity Fair birt ítarlegar greinar þar sem farið var yfir málið frá A-Ö.
Í viðtali vegna umfjöllunar Vanity Fair, sem kom út í nóvember síðastliðinn, kom meðal annars að maðurinn sem skipulagði þjófnaðinn sé alþjóðlegur huldumaður. Þá var þeim möguleika velt upp að tölvubúnaðurinn væri enn í gangi, að grafa upp Bitcoin, fyrir hinn alþjóðlega höfuðpaur.
„Kannski hafa tölvurnar verið í gangi allan tímann,“ sagði Sindri í viðtali við Vanity Fair. „Kannski veit ég hvar þær eru og kannski ekki.“
Vísir er í eigu Sýnar hf sem einnig á Stöð 2.