Innlent

Fór yfir girðingu og gekk eftir flugbraut á Reykjavíkurflugvelli

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi sami maður hafði verið handtekinn rúmlega þrettán tímum áður fyrir sama brot.
Þessi sami maður hafði verið handtekinn rúmlega þrettán tímum áður fyrir sama brot. Vísir/vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í nótt mann sem hafði farið yfir girðingu við Reykjavíkurflugvöll og var hann á göngu eftir flugbraut þegar lögregluþjóna bar að garði. Hann var handtekinn og vistaður í fangageymslu lögreglunnar. Maðurinn er grunaður um að raska öryggi loftfara og húsbrot.

Þessi sami maður hafði verið handtekinn rúmlega þrettán tímum áður fyrir sama brot. Einnig var búið að hafa afskipti af honum fyrir að hafa ekki greitt fyrir leigubíl, samkvæmt dagbók lögreglunnar.

Þá barst lögreglunni tilkynning í gærkvöldi um að flugeld hafði verið kastað inn um glugga á baðherbergi íbúðar í Hafnarfirði. Sprenging flugeldsins skemmdi innréttingu á baðinu og kveikti í fatnaði sem var þar. Íbúar urðu þó varir við sprenginguna og voru búnir að slökkva eldinn þegar lögregluþjónar komu á vettvang.

Lögregluþjónar stöðvuðu bíl í Laugardalnum í gærkvöldi þar sem bílinn var án skráningarnúmera og ótryggður. Í ljós kom að eigandinn var að selja bílinn og var væntanlegur kaupandi að prófa hann.

Einn maður var handtekinn í gærkvöldi vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Sá hafði lent í umferðaróhappi um klukkan ellefu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×