Erlent

Netanjahú formlega ákærður

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Donald Trump og Benjamín Netanjahú á fundi þeirra í Hvíta húsinu í gær.
Donald Trump og Benjamín Netanjahú á fundi þeirra í Hvíta húsinu í gær. Getty Images/Jabin Botsford

Ríkissaksóknari í Ísrael hefur ákært Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, fyrir mútur, fjársvik og umboðssvik. Þetta gerði hann í kjölfar þess að hinn síðarnefndi dró beiðni til um friðhelgi til baka.

Forsætisráðherrann útskýrði á samfélagsmiði í dag hvers vegna hann hefði dregið beiðni sína til ísraelska þingsins um friðhelgi til baka. Hann sagðist hafa séð fyrir sér að umræður í þinginu myndu fljótt þróast út í „sirkús“ og að hann hefði áhuga á að taka þátt í „skítugum leik“.

Útspil Netanjahús leiðir til þess að ekkert er nú því til fyrirstöðu að réttarhöld yfir honum geti hafist. Þau gætu aftur á móti staðið yfir í marga mánuði og jafnvel ár en honum ber engin skylda til að segja af sér í millitíðinni.

Í nóvember var Netanjahú ákærður fyrir mútur, fjársvik og umboðssvik en hann sagðist strax ætla að sækjast eftir friðhelgi af hálfu þingsins sem leiddi til þess að honum var ekki birt formleg ákæra fyrr en í dag.

Netanjahú var staddur í Washington á fundi með Bandaríkjaforseta þegar honum var birt ákæran.

Al Jazeera greinir frá því að bandamennirnir Netanjahú og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hafi í dag lagt drög að áætlun til að koma á friði á milli Palestínu og Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×