Erlent

Lægðin sem gengur yfir Ísland veldur usla í Bretlandi og hefur fengið nafnið Brendan

Eiður Þór Árnason skrifar
Hér má sjá gervitunglamynd sem sýnir veðrakerfið í heild sinni.
Hér má sjá gervitunglamynd sem sýnir veðrakerfið í heild sinni. Veðurstofan

Þúsundir heimila eru án rafmagns á Norður-Írlandi og vegum hefur víða verið lokað vegna illviðris sem gengur nú yfir stóran hluta Bretlands. Nokkuð er um samgöngutruflanir og varað við því að vindhviður geti sums staðar náð yfir 35 metrum á sekúndu.

Stormurinn sem um ræðir hefur fengið nafnið Brendan en um er að ræða sömu lægð og gengur nú yfir Ísland að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings. Í færslu á Facebook greinir Einar frá því að um sé að ræða stóra lægð sem nái yfir mest allt Norður-Atlantshafið. Dæmi er um að stormurinn hafi rifið upp tré í Bretlandi og feykt flutningabíl á hliðina.

Gul viðvörun vegna veðurs er nú í gildi á Norður-Írlandi í dag og hefur írska veðurstofan varað við „mjög hættulegu veðri.“ Breska veðurstofan hefur auk þessa gefið út gula viðvörun fyrir vesturströnd Bretlands, hluta Wales og norðausturhluta Skotlands.

Áætlunarferðir flugvéla, lesta og ferja hafa þar víða raskast vegna veðursins og hefur skólum sums staðar verið lokað. í Wales eru nærri níu hundruð heimili sögð vera án rafmagns.

Gular og appelsínugular viðvaranir vegna veðurs eru í gildi alls staðar hér á landi í dag og á morgun. Hviður eru sagðar geta náð allt að fimmtíu metrum á sekúndu.


Tengdar fréttir

Veðrið kom aftan að Isavia og Icelandair

Óveðrið í gær kom Isavia á óvart en veðurspár höfðu ekki greint frá slíkum hvelli að sögn upplýsingafulltrúa Isavia. Alls voru um 4000 farþegar voru strandaglópar á flugvellinum á miðnætti í gær. Fimm hundruð manns nýttu sér þjónustu í fjöldahjálparstöð sem opnuð var í gærkvöldi í Reykjanesbæ. Flug var á áætlun í morgun og verður flýtt í dag. Ferðamenn eru beðnir að fylgjast vel með flugáætlun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×