Erlent

Fæðingartíðnin í Kína ekki verið lægri frá því fyrir tíð kommúnismans

Kjartan Kjartansson skrifar
Kínverskur drengur að leik í Beijing. Fæðingartíðnin í fyrra var sú minnsta frá árinu 1949.
Kínverskur drengur að leik í Beijing. Fæðingartíðnin í fyrra var sú minnsta frá árinu 1949. Vísir/EPA

Börnum sem komu í heiminn í Kína árið 2019 fækkaði um 580.000 á milli ára og hefur fæðingartíðni í landinu ekki verið lægri frá því að kommúnisma var komið á þar fyrir rúmum sjötíu árum. Engu að síður fjölgaði landsmönnum vegna lækkandi dánartíðni og eru þeir nú um 1,4 milljarðar talsins.

Hagstofa Kína segir að 14,6 milljónir barna hafi fæðst í fyrra og var fæðingartíðnin 10,48 börn á þúsund íbúa. Hlutfallið hefur ekki verið lægra frá árinu 1949, fyrir stofnun alþýðulýðveldisins. Til samanburðar telur Alþjóðabankinn að fæðingartíðni á heimsvísu hafi verið 18,65 börn á þúsund íbúa árið 2017.

Fæðingartíðnin í Kína er lægri en í Bandaríkjunum þar sem hún var tólf börn á þúsund íbúa árið 2017 en hærri en í Japan þar sem aðeins átta börn fæðast á hverja þúsund íbúa.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að fæðingartíðni hafi farið hnignandi í Kína undanfarin ár þrátt fyrir að slakað hafi verið á reglum sem kveða á um að pör megi aðeins eignast eitt barn. Líkt og á vesturlöndum hafa því vaknað áhyggjur af svonefndri „lýðfræðitímasprengju“ í Kína þar sem sífellt færri eru hlutfallslega á vinnualdri og þurfa að sjá fyrir stækkandi hópi fólks á eftirlaunum.

Frá árinu 2015 hafa pör mátt eignast tvö börn en engu að síður er viðvarandi ójafnvægi á milli kynjanna í Kína. Karlar voru þannig um þrjátíu milljónum fleiri en konur í fyrra. Sérfræðingar segja að tilslökuninni hafi ekki fylgt aðrar aðgerðir til að hjálpa barnafjölskyldum. Flest pör hafi því aðeins efni á því að eignast eitt barn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×