Innlent

Sendu síðustu stöðuskýrsluna vegna snjóflóðanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Varðskipið Þór við hreinsun í höfninni á Flateyri í dag.
Varðskipið Þór við hreinsun í höfninni á Flateyri í dag. Landhelgisgæslan

Aðgerðarstjórn á Ísafirði og Samhæfingastöð almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík hafa lokið störfum vegna snjóflóða á Flateyri og í Súgandafirði. Síðasta stöðuskýrsla samhæfingarstöðvarinnar var send út í dag.

Í dag luku björgunarsveitir við mokstur á snjó úr húsinu í Ólafstúni 14 sem lenti undir öðru snjóflóðinu sem féll á Flateyri. Birgt var fyrir glugga og húsinu lokað. Þá hefur björgunarsveitafólk verið að stöfum á Flateyri í dag og aðstoðað íbúa við snjómokstur. Lögð hefur verið áhersla á að moka snjó frá húsum og hreinsa þök þar sem von er hláku næstu dag, að því er fram kemur í skýrslu samhæfingarstöðvarinnar.

Hluti björgunarsveitafólks sem sent var frá höfuðborgarsvæðinu fyrr í vikunni fór með flugi til baka seinni partinn í dag. Sjö manns verða áfram á Flateyri til stuðnings við björgunarsveitir á svæðinu vegna veðurspár á sunnudag, sem er afar slæm.

Varðskipið Þór var til taks við Flateyri í dag. Áhöfnin átti fund með sérfræðingi Umhverfisstofnunar og hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar til að fara yfir mengunarvarnir og hreinsun hafnarinnar. Áhöfnin á varðskipinu hélt á tveimur léttbátum og hreinsuðu brak og annað rusl úr höfninni. Þá var krani varðskipsins notaður til að hífa brakið úr sjó.

Ríkislögreglustjóri hefur jafnframt ákveðið að opna tímabundna þjónustumiðstöð á Vestfjörðum vegna snjóflóðanna. Þjónustumiðstöðvar eru opnaðar þegar ljóst er að snjóflóð eða aðrar hamfarir hafa haft áhrif á íbúa, byggð, umhverfi og eignir í nágrenni hamfarasvæðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×