Fótbolti

Segist hafa verið beittur fjárkúgun en var settur í bann: „Ég er fórnarlamb glæps“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Sanchez tók við liði Málaga í apríl síðastliðnum.
Victor Sanchez tók við liði Málaga í apríl síðastliðnum. Getty/Aitor Alcalde Colomer

Spænska knattspyrnufélagið Málaga hefur sett þjálfara sinn Victor Sanchez í bann eftir að vafasamt myndband með honum birtist á samfélagsmiðlum.

Victor Sanchez fór engum fögrum orðum um menn og málefni í umræddu myndbandi sem var ekki fyrir börn né viðkvæma og honum til skammar.

Victor Sanchez tjáði sig um málið á Twitter og segist hafa verið beittur fjárkúgun áður en myndbandið kom á netið.

Málaga ætlar að rannsaka málið betur en þjálfarinn er engu að síður kominn í bann.



„Ég er fórnarlamb glæps gagnvart einkalífi mínu í viðbót við áreitni og fjárkúgun,“ skrifaði Victor Sanchez á Twitter. „Lögreglan er að rannsaka málið og ég treysti mér til að fyulgja fyrirmælum hennar,“ skrifaði Sanchez.

Málaga spilar í spænsku b-deildinni og er eins og er í sextánda sæti aðeins einu stigi fyrir ofan fallsæti. Liðið hefur gert þrjú jafntefli í röð og alls 11 jafntefli í 22 leikjum sínum í deildinni í vetur.

„Að deila eða dreifa persónulegu efni án leyfis er líka glæpur hvort sem það er gegn samfélagsmiðla, smáskilaboð eða með öðrum leiðum. Takk fyrir skilninginn og stuðninginn,“ skrifaði Victor Sanchez.



Victor Sanchez var settur í ótímabundið bann á meðan félagið rannsakar málið.

Abdullah Al Thani, forseti Málaga, beindi líka orðum sínum til Victor Sanchez á samfélagmiðlum: „Vertu sterkur og segðu að þú hafir gert mistök.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×