Viðskipti innlent

Ekki sé hægt að verða við nýjum skilmálum Borgunar

Birgir Olgeirsson skrifar
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu

Samtök verslunar og þjónustu segja að ekki sé nokkur leið að verða við nýjum skilmálum Borgunar um veltutryggingar. Skilningur samtakanna er sá að veltutryggingin nái yfir allar atvinnugreinar.

Fjármálafyrirtækið Borgun tilkynnti um skilmálabreytingar á föstudag fyrir verslunarmannahelgi. Um er að ræða svokallaða veltutryggingu sem verður innleidd 1. október næstkomandi. Með tryggingunni ætlar fyrirtækið að halda eftir 10 prósentum heildarfjárhæðar allra færslna á uppgjörum. Tryggingunni verður haldið eftir í sex mánuði.

Þessi skilmálabreyting er ansi umdeild og þykir fremur óljós. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur gagnrýnt hana harðlega og telur Borgun í órétti. Ekki sé heldur ljóst hvort að þessi veltutrygging muni aðeins ná yfir fyrirtæki í ferðaþjónustu eða til allra fyrirtækja.

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir að skilningur þeirra sé sá að þessi skilmálabreyting nái til allra fyrirtækja.

„Eins og við skiljum þetta ná þessir skilmálar til allra atvinnugreina, ekki bara ferðaþjónustunnar. Það er alveg ljóst að okkar mati að þetta eru skilmálar sem er ekki nokkur leið að samþykkja. Hvorki fyrir okkur né aðra,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Hann segir málið óljóst og samtökin eigi eftir að kynna sér málið nánar.

„Þetta er sett út á föstudegi fyrir verslunarmannahelgi sem er dæmigerð tímasetning þegar fyrirtæki þurfa að tilkynna eitthvað sem er óþægilegt,“ segir Andrés.

Engin svör hafa fengist frá Borgun í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fréttastofu.

I bréfi Borgunar til fyrirtækja kemur fram að þessar veltutryggingu sé ætla að minnka endurkröfuáhættu. Vegna kórónuveirufaraldursins hefur þurft að aflýsa mörgum ferðum með tilheyrandi endurgreiðslukröfum ferðamanna á hendur ferðaþjónustufyrirtækja.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×